Enski boltinn

Caicedo hafnar Liverpool og vill bara Chelsea

Sindri Sverrisson skrifar
Hart er barist um hinn 21 árs gamla Ekvadora Moisés Caicedo, sem kom til Brighton fyrir tveimur árum.
Hart er barist um hinn 21 árs gamla Ekvadora Moisés Caicedo, sem kom til Brighton fyrir tveimur árum. Getty/Craig Mercer

Enn ríkir algjör óvissa um að Mosies Caicedo gangi í raðir Liverpool frá Brighton, fyrir metfé í enskri knattspyrnu, þar sem að leikmaðurinn er sagður hafa fengið bakþanka.

Fabrizio Romano, sennilega helsti sérfræðingur heims um félagaskipti knattspyrnumanna, segir Caicedo búinn að tjá Liverpool það að hann vilji eingöngu semja við Chelsea. Hann hafi verið búinn að semja við Chelsea um sín kaup og kjör í lok maí. Nú reyni Chelsea að ná samningum við Brighton.

Sky Sports fjallar einnig um málið í dag og segir að Caicedo og hans fulltrúar haldi kyrru fyrir í London. Þó hafi ekkert komið fram um hvort að Chelsea hafi lagt fram nýtt og endurbætt tilboð í miðjumanninn, eftir að kapphlaupinu á milli Liverpool og Chelsea virtist lokið.

Sky segir þó að Chelsea hafi ekki gefist upp en að mikið þurfi til að breytingar verði svona seint. Brighton hafi verið búið að setja ákveðin tímamörk og endað á að semja við Liverpool um 111 milljóna punda sölu. Brighton hafi ekki áhuga á frekari samningaviðræðum.

Chelsea sé samt búið að bjóða Caicedo betri samning og vonist til að Caicedo láti eitthvað breytast með því að mótmæla því að fara til Liverpool og fullyrða að hann vilji eingöngu fara til Chelsea.

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, var spurður á blaðamannafundi í dag út í kaupverðið á Caicedo út frá þeirri staðreynd að fyrir nokkrum árum sagðist hann aldrei myndu eyða 100 milljónum punda í einn leikmann.

„Það hefur allt breyst. Er ég ánægður með það? Nei. Sá ég að ég hafði rangt fyrir mér? Já. Svona er þetta bara,“ sagði Klopp á blaðamannafundi vegna stórleiksins við Chelsea á sunnudaginn.

„Sádi Arabía hjálpar ekki til við þetta. Á endanum snýst þetta um að við reynum að búa til eins gott lið og við getum,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×