Enski boltinn

Rashford ætlar að slá markamet Rooneys

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wayne Rooney og Marcus Rashford léku saman hjá Manchester United og enska landsliðinu.
Wayne Rooney og Marcus Rashford léku saman hjá Manchester United og enska landsliðinu. getty/Robbie Jay Barratt

Marcus Rashford stefnir á að slá markamet Waynes Rooney hjá Manchester United. Rooney hefur átt metið síðan 2017.

Rashford hefur skorað 123 mörk í 359 leikjum fyrir United og vantar 131 mark til að slá met Rooneys. Hinn 25 ára Rashford skrifaði nýverið undir fimm ára samning við United.

„Vonandi slæ ég met Rooneys,“ sagði Rashford í hlaðvarpi Garys Neville, the Overlap.

„Þú veist aldrei hvað gerist en mínar ær og kýr eru að skora og leggja upp mörk. Það er möguleiki að þetta gerist. Ég hef talað við Rooney um þetta og hann vill að ég nái þessu. Hann segir að það verði gott ef ég geri það þar sem ég er uppalinn hjá félaginu. Vonandi fæ ég tækifæri til að reyna að ná þessu.“

Rashford skoraði þrjátíu mörk í 56 leikjum fyrir United á síðasta tímabili og ætlar að gefa enn meira í á næsta tímabili. Hann vonast jafnframt til þess að sleppa við meiðsli.

„Fyrir síðasta tímabil stefndi ég alltaf á tuttugu mörk sem er gott fyrir kantmann. En á síðasta tímabili skoraði ég þrjátíu mörk og ég verð að stefna hærra,“ sagði Rashford.

„Undir lok síðasta tímabils var ég í vandræðum vegna meiðsla og var ekki alveg í stuði og þá fækkaði mörkunum. Ef ég næ að halda mig frá þeim finnst mér ég geta náð 35-40 mörkum.“

United mætir Wolves í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar um þarnæstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×