„Þetta er ekki að skýrast eins og við höfðum óskað okkur. Ástæðan er sú að það virðast vera leifar af fellibyl sem er að ganga til austurs yfir Atlantshafið á fimmtudag og föstudag,“ segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur í samtali við fréttastofu.
Elín segir þó að leifarnar af fellibylnum eigi ekki eftir að koma til Íslands, þær haldi sér í Bretlandi. „En við sitjum svolítið í óvissusúpunni þarna í kjölfarið.“
Óvissan felist í því hvort úrkomusvæðið komi hérna yfir og hvort að hitabeltislægð verði að lægð í Norður-Atlantshafi. „Það breytir svolítið miklu hvort hún kemur eða fer. Þannig það er nú eiginlega það sem við erum að horfa á núna.“
Þá segir Elín að veðurspárnar hafi breyst mikið frá því í gær. Því sé ekki eins auðvelt að spá fyrir um það hvernig veðrið verður um verslunarmannahelgina. Eins og staðan er núna sé útlit fyrir einhverri rigningu á vestanverðu landinu en létta eigi svolítið til á norður- og austurlandi. Búist sé við átta til fimmtán stiga hita.
„Þetta er ekkert hvassviðri eða slíkt.“
Búast má við að mikill fjöldi fólks komi saman á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um næstu helgi. Samkvæmt spánni lenda Vestmannaeyjar undir úrkomusvæðinu en þó er spáð hægviðri.
„Við höfum oft verið að sjá miklu verra veður í Eyjum heldur en í þessari spá. Þannig það er bara regngallinn eins og alltaf, þú ferð náttúrulega ekki til Vestmannaeyja án þess að taka regngalla.“