Óvænt sjón blasti við grindvískum golfurum þegar þeir mættu til leiks á 10. braut í gær en gríðarstór steinn hafði losnað úr klöpp nokkuð ofan við völlinn og oltið alla leið inn á brautina, golfþyrstum Grindvíkingum til mikils ama.
Það var golflýsandinn og framkvæmdastjóri UMFG, Jón Júlíus Karlsson, sem greindi frá þessu á Twitter og birti mynd af hnullungnum.
Þessi steinn valt út úr klöppinni við 10. braut í gær og alla leið inn á braut. Náttúran heldur betur að minna á sig á Húsatóftavelli. pic.twitter.com/TfB3dWOOZ6
— Jón Júlíus Karlsson (@JonJKarlsson) July 25, 2023
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem völlurinn á Húsatóftum fær að kenna á krafti náttúruaflanna. Völlurinn stendur við sjávarkambinn og er stutt í ágang sjávar. Í febrúar 2020 urðu miklar skemmdir á vellinum eftir hamfaraveður og aftur snemma árs 2022 þar sem gríðarlegt magn af sjávargrjóti þakti stóran hluta af fimm holum vallarins.