Inga Tinna og Logi hafa verið að stinga saman nefjum í nokkurn tíma og má með sanni segja að þau séu eitt glæsilegasta par landsins. Bæði hafa getið sér góðs orðs innan sinna starfsgreina, Inga sem frumkvöðull á sviði hugbúnaðarlausna og Logi sem sérfræðingur í handbolta.
Viðskiptablaðið greindi meðal annars frá því að tekjur Dineout, í eigu Ingu, hafi þrefaldast á einu ári en um 250 veitingastaðir á Íslandi hafa tekið upp lausnir Dineout.
Parið á það jafnframt sameiginlegt að hafa bæði ratað inn á lista hér á Vísi á vordögum yfir glæsilegt fólk á lausu. Þar er þeim lýst svona:

Athafnakonan Inga Tinna er stofnandi og eigandi Dineout. Hún er lærður verkfræðingur og mikill fagurkeri. Inga hefur hlotið ýmsar viðurkenningar í viðskiptalífinu og er mikið hæfileikabúnt. Skemmtileg og falleg manneskja sem kann að lifa lífinu lifandi. Inga Tinna elskar góðan mat og er að sögn vina sinna falleg að innan sem að utan.

Loga þekkja eflaust flestir eftir glæstan feril sem atvinnumaður í handbolta og landsliðsmaður. Í dag starfar hann sem einkaþjálfari og sérfræðingur um handbolta í sjónvarpi á Rúv og Stöð 2 sport. Logi þykir einkar smekklegur til fara og hugar bersýnilega vel að útlitinu.