Englendingurinn Luke Morgan Conrad Rae opnaði markareikning sinn á hárréttum tíma en hann skoraði á lokamínútu leiksins eftir að hafa komið inn á sem varamaður níu mínútum fyrir leikslok.
Þettar var fyrsta mark Luke fyrir KR í efstu deild í hans tíunda deildarleik með Vesturbæjarfélaginu.
Markið var líka það eina sem var skorað í Bestu deild karla í gær því Fylkir og HK gerðu markalaust jafntefli í hinum leik kvöldsins.
Það voru fleiri hetjur í KR-liðinu en Luke Morgan Conrad Rae því áður en markið kom þá varði norski markvörðurinn Simen Lillevik Kjellevold víti frá FH-ingnum Úlfi Ágústi Björnssyni.
Luke Morgan Conrad Rae er 22 ára Englendingur sem kom til KR frá Gróttu þar sem hann skoraði 7 mörk í 20 leikjum í Lengjudeildinni í yrra. Hann var þar áður í Vestra og Tindastól og hefur því spilað á Íslandi undanfarin fjögur sumur.
Þessi þrjú stig komu KR-liðinu upp í fjórða sæti deildarinnar og upp fyrir FH-inga.
Hér fyrir neðan má sjá bæði vítavörsluna og sigurmarkið.