Valgeir Lunddal Friðriksson og félagar hans í Häcken voru í fínum málum eftir heimaleikinn gegn The New Saints þar sem Häcken vann 3-1 sigur á heimavelli.
Þegar Ibrahim Sadiq kom Häcken síðan í 1-0 í leiknum í kvöld á 19. mínútu var björninn svo gott sem unninn. Sænsku meistararnir bættu við öðru marki í uppbótartíma og tryggðu sér þar með öruggan 5-1 sigur samanlagt.
Valgeir Lunddal lék allan leikinn í liði Häcken sem mætir sigurvegaranum úr viðureign KÍ frá Færeyjum og ungverska liðsins Ferencvaros. Seinni leikur þeirra liða verður leikinn á morgun en markalaust er eftir fyrri leikinn í Færeyjum.
Árni Vilhjálmsson sat allan tímann á bekk Zalgiris sem tryggði sér einnig sæti í næstu umferð. Liðið vann 2-1 sigur á FC Struga frá Norður-Makedóníu en markalaust var í einvíginu eftir fyrri leikinn.