Körfubolti

San Antonio munu fara sér að engu óðs­lega með Wembanyama og mínúturnar hans í vetur

Siggeir Ævarsson skrifar
Victor Wembanyama er ekki klár í það álag sem fylgir 82 leikja tímabilinu í NBA
Victor Wembanyama er ekki klár í það álag sem fylgir 82 leikja tímabilinu í NBA Ethan Miller/Getty Images

San Antonio Spurs liggur ekkert á að gera hinn 19 ára Victor Wembanyama að fullmótaðari NBA stjörnu. Hann mun væntanlega hvíla einn leik af tveimur í vetur þegar liðið á leiki tvö kvöld í röð.

Það er vel þekkt staðreynd að það tekur nýliða í NBA deildinni oft tímabil eða tvö að venjast álaginu í deildinni og Spurs vita að þeir eru með langtímafjárfestingu í höndunum með Wembanyama. Þeir munu því einbeita sér að því að styrkja hann líkamlega í vetur og láta hann hvíla reglulega.

Síðasta tímabil var Paolo Banchero valinn fyrstur í nýliðavalinu og lék tæpar 33 mínútur í 72 leikjum. Wembanyama verður væntanlega töluvert frá þessum tölum en þó reikna sérfræðingarnir með að hann sé líklegastur til að verða valinn nýliði ársins. Sá titill sé þó ekki í neinum forgangi hjá stjórnendum liðsins.

Ónafngreindur heimildarmaður greindi frá þessu í viðtali við Fox, en herbúðir San Antonio Spurs eru þekktar sem „Járnhvelfingin" innan NBA þar sem lítið sem ekkert slúður lekur þaðan alla jafna. 

Þessi sami heimildarmaður sagði jafnframt að Wembanyama væri leikmaður sem gæti verið stjarna í deildinni í 15-20 ár. Það væri því fáránlegt að rústa honum á fyrsta eða öðru tímabili. Vítin til að varast væru til staðar í Zion Williamson og Ja Morant.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×