Franski miðillinn Le Parisen greinir frá því í dag að Chelsea sé alvarlega að íhuga tilboð í brasilísku stórstjörnuna Neymar. Forráðamenn Chelsea hafa fylgst með stöðu hans hjá PSG og eru klárir með tilboð ef Neymar sjálfur óskar eftir að yfirgefa Parísarliðið.
Hvort PSG er tilbúið að selja Neymar er óljóst. Hann hefur oft og mörgum sinnum verið orðaður við brottför frá félaginu og oftar en ekki hefur Chelsea verið nefnt sem mögulegur áfangastaður.
Síðasta tímabil var erfitt fyrir Neymar. Hann var mikið meiddur og lék sinn síðasta leik þann 19. febrúar síðastliðinn. Hann þurfti á endanum að fara í aðgerð á fæti en skilaði samt sem áður 18 mörkum og 17 stoðsendingum í þeim tuttugu og sjö leikjum sem hann spilaði.
Neymar er orðinn þrjátíu og eins árs gamall og er með samning við PSG þar til sumarið 2025. Ef hann yfirgæfi PSG fyrir Chelsea myndi hann hitta fyrir gamla knattspyrnustjóra sinn Mauricio Pochettino sem tók við stöðunni hjá Chelsea nú í sumar.