Körfubolti

NBA fór ekki alveg alla leið í nýju flopp-reglunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 LeBron James og kollegum hans í NBA-deildinni í körfubolta verður refsað fyrir leikaraskap á næstu leiktíð.
 LeBron James og kollegum hans í NBA-deildinni í körfubolta verður refsað fyrir leikaraskap á næstu leiktíð. Getty/Kevin C. Cox

NBA deildin í körfubolta hefur nú samþykkt tvær reglubreytingar fyrir komandi keppnistímabil.

Stjórn NBA fór yfir tillögurnar og þær hafa nú fengið grænt ljóst frá þeim sem ráða. Það þurfti þó að draga úr áhrifamætti annarar þeirra til að fá hana samþykkta.

Önnur reglan snýr að auknum möguleika þjálfara á því að senda dómara í Varsjána en hin snýr að nýrri refsireglu til að sporna við leikaraskap leikmanna.

Þjálfarar hafa hér eftir tvö tækifæri til að fá dómara til að endurskoða dóma sína á myndbandsupptöku. Ef þjálfari vísar dómi í Varsjána snemma leiks og þjálfarinn hefur rétt fyrir sér þá fær hann möguleika á því að gera það aftur seinna í leiknum.

Liðin fá leikhléið sitt aftur vinni þeirri fyrri dómaravéfengjuna en það mun alltaf kosta þau leikhlé sendi þau dóminn aftur í Varsjána sama hver niðurstaðan verður.

Hin reglubreytingin snýr að tæknivillu fyrir leikaraskap eða flopp eins og það er kallað úti.

Til að sporna við auknum leikaraskap í NBA leikjum þá geta dómarar hér eftir dæmt flopp-tæknivillu.

Villan mun þó fara á liðið sjálft og mótherjinn fær í staðinn eitt víti.

Dómarar þurfa ekki að stoppa leikinn strax til að dæma tæknivilluna og þeir mega líka skoða atvik á myndbandi ef að þeir hafa verið kallaðir til að skoða annað atvik. Mögulegur leikaraskapur kallar þó aldrei á sérferð í Varsjána.

Í fyrstu drögum áttu liðin einnig að missa boltann fái þau dæmt á sig tæknivillu fyrir leikaraskap en áveðið var að draga þar í land og leikurinn heldur því áfram eins og frá var horfið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×