Fótbolti

Fyrirliðinn yfirgefur Chelsea eftir ellefu ára samband

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cesar Azpilicueta gekk í raðir Chelsea árið 2012.
Cesar Azpilicueta gekk í raðir Chelsea árið 2012. Darren Walsh/Chelsea FC via Getty Images

Cesar Azpilicueta, fyrirliði enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea, hefur yfirgefið félagið eftir ellefu ára veru hjá liðinu og skrifað undir eins árs samning við Atlético Madrid.

Azpilicueta hafði verið hjá Chelsea síðan árið 2012 þegar hann kom til félagsins frá franska félaginu Marseille og hafði verið fyrirliði Lundúnaliðsins frá árinu 2019. Hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við þá bláklæddu.

Greint var frá því hér á Vísi um liðna helgi að leikmaðurinn væri að öllum líkindum á leið til Atlético Madrid og nú hefur það verið staðfest.

Alls lék Azpilicueta 508 leiki fyrir Chelsea og vann allt sem hægt var að vinna með liðinu. Hann vann ensku úrvalsdeildina tvisvar, Meistaradeild Evrópu einu sinni og Evrópudeildina tvisvar svo eitthvað sé nefnt.

„Það er erfitt að lýsa því hvernig mér líður. Þetta er búið að vera magnað,“ sagði Azpilicueta.

„Chelsea er og verður alltaf heimili mitt. Vonandi get ég snúið aftur síðar í annað hlutverk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×