Bertone var dæmdur í fimm leikja bann þann 2. júní síðastliðinn vegna hegðunar sinnar að loknum oddaleiks Vals og Tindastóls í úrslitum Subway-deildar karla.
Valsmenn lutu í lægra haldi í leiknum og Tindastóll tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í sögunni og Bertone var allt annað en sáttur við dómara leiksins. Bertone fór því inn í herbergi dómara að leik loknum og má ætla að það hafi verið til að ræða það sem fram fór á lokasekúndum leiksins. Umdeilt var hvort dæma hefði átt óíþróttamannslega villu á Tindastól í blálok leiksins.
Valur áfrýjaði banninu, en áfrýjunardómstóll KKÍ hefur hins vegar vísað áfrýjuninni frá. Í niðurstöðu dómstólsins eru talin upp þau atriði sem þurfa að koma fram í sérstöku áfrýjunarskjali í máli sem þessu áður en segir að „verulega skorti á“ í skjalinu sem Valsmenn sendu inn.
„Verulega skortir á, að áfrýjunarskjal það sem barst dómstólnum, uppfylli framangreind skilyrði. Verður því málinu vísað frá ex officio,“ segir í úrskurði áfrýjunardómstólsins, en úrskurðinn má finna í heild sinni með því að smella hér.