Alanyaspor mátti þola 5-1 skell gegn Trabsonspor á útivelli í lokaumferð deildarinnar en það féll í skaut Yusuf Karagöz að standa vaktina í marki Alanyaspor, eitthvað sem Rúnar Alex hefur séð um að gera á tímabilinu.
Rúnar hefur verið á láni hjá Alanyaspor frá enska úrvalsdeildarfélaginu Arsenal á yfirstandandi tímabili. Í Tyrklandi hefur hann spilað 34 leiki í öllum keppnum á tímabilinu og sex sinnum haldið hreinu.
Alanyaspor endar tímabilið í 12. sæti tyrknesku úrvalsdeildarinnar en nítján lið taka þátt í deildinni hverju sinni.
Óvíst er hvað tekur við hjá Rúnari Alex en samningur hans við Arsenal rennur út eftir rúmt eitt ár. Hann á að baki sex leiki fyrir félagið og hefur verið sendur á láni frá því í tvígang undanfarin ár.
Hann hefur staðið vaktina í marki íslenska landsliðsins í fyrstu tveimur leikjum liðsins í undankeppni EM 2024 til þessa og gera má fastlega ráð fyrir því að hann verði í fyrsta landsliðshópi Íslands undir stjórn Norðmannsins Åge Hareide sem verður opinberaður í næstu viku.