Undanúrslitamót fyrir heimsleikana í Crossit fer fram í Berlín nú um helgina en þar er barist um ellefu farseðla á heimsleikana í sumar.
Eftir þriðju grein mótsins er Annie Mist Þórisdóttir komin upp í efsta sætið en hún náði næst besta árangri allra keppenda í þriðju greininni. Í þriðju greininni áttu keppendur að gera tíu umferðir af dauðalyftum, bekkpressulyftum með ketilbjöllur og hnébeygjum. Í fyrstu umferð þurfti að gera tíu endurtekningar, næst níu, síðan átta og svo koll af kolli og snerist keppnin um að klára sem fyrst.
Annie Mist varð önnur í greininni, kláraði æfinguna á 12:08,97 mínútum og var aðeins tveimur hundraðshlutum úr sekúndu á eftir hinni pólsku Gabriela Migala sem varð fyrst en hún er í öðru sæti heildarkeppninnar.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir varð í þrettánda sæti á 14:28, 67 mínútum en hún er í fjórtánda sæti sem stendur. Þuríður Helgadóttir er í 24. sæti og Sólveig Sigurðardóttir í 33. sæti.
Fjórar greinar eru eftir en Annie Mist er með 258 stig í efsta sæti, Migala í öðru sæti með 256 stig og hin sænska Emma Tall í því þriðja með 255 stig.
Björgvin Karl féll niður listann
Það gekk ekki alveg jafn vel hjá Björgvini Karli Guðmundssyni í þriðju greininni. Hann varð í 25. sæti, líkt og í grein tvö, og féll niður í sextánda sæti en hann var níundi eftir tvær greinar.
Bretinn David Shorunke var fyrstur allra og kláraði æfinguna á 12:26,68 en Björgvin Karl var með tímann 16:32,19.
Serbinn Lazar Dukic er efstur allra í heildarkeppninni með 285 stig en Björgvin Karl er með 165 stig í sextánda sætinu.
Fjórða og fimmta grein keppninnar fara fram síðar í dag.