Spenningurinn einokast ekki aðeins við Ísland enda vill eflaust allur CrossFit heimurinn fá svar við því hvort Anníe Mist hafi sem þarf til til að verða sú fyrsta sem keppir í meistaraflokki á heimsleikum með fjórtán ára millibili.
Anníe Mist keppti fyrst á heimsleikunum árið 2009 og frá 2010 til 2014 vann hún tvo heimsmeistaratitla og tvenn silfurverðlaun.
Anníe keppti síðast í einstaklingskeppni heimsleikana árið 2021 og náði þá þriðja sætinu sem var jafnframt í sjötta sinn sem hún kemst á verðlaunapall á leikunum.
Anníe sá vinkonu sína Katrínu Tönju Davíðsdóttur tryggja sér sæti á sínum tíundu heimsleikum um síðustu helgi og komist Anníe þangað líka þá mun hún keppa á sínum þrettándu heimsleikum þar af í tólfta sinn í einstaklingssæti.
Ellefu sæti eru í boði fyrir Evrópu og allar fjórar íslensku stelpurnar gera sig líklegar til að tryggja sér farseðilinn. Anníe náði sjötta besta árangrinum í fjórðungsúrslitunum og var þar einu sæti á eftir Þuríði Erlu Helgadóttur. Þuríður Erla getur tryggt sig inn á sína fjórðu heimsleika í röð en hún varð efst íslensku stelpnanna á heimsleikunum í fyrra. Þetta yrði hennar níundi heimsleikar komist hún alla leið.
Augu margra verða einnig á Söru Sigmundsdóttur sem varð níunda í fjórðungsúrslitunum og hefur sýnt að undanförnu að hún sé á réttri leið í hóp þeirra bestu í heimi á ný eftir að hafa misst úr tvö ár vegna erfiðra hnémeiðsla og vandamálum tengdum þeim.
Sara hefur ekki komist á síðustu tvo heimsleika og það eru liðin sex ár síðan hún endaði síðast meðal þeirra efstu á heimsleikum. Fyrst á dagskrá hjá Söru er að koma sér inn á heimsleikana.
Sólveig Sigurðardóttir þarf að gera betur en í fjórðungsúrslitunum ætli hún að komast á aðra heimsleikana í röð. Aðeins hún og Þuríður Erla komust alla leið á heimsleikana af íslensku stelpunum í einstaklingskeppninni í fyrra.
Sólveig endaði í sextánda sæti í fjórðungsúrslitunum og þarf því að hækka sig um sex sæti til að komast til Madison. Vonandi skilar það sér að hafa æft með Anníe Mist í undirbúningnum fyrir mótið.
Björgvin Karl Guðmundsson varð annar í Evrópu í fjórðungsúrslitunum og hefur allt til alls til að tryggja sig inn á tíundu heimsleika sína í röð sem yrði magnaður árangur og tákn um hans ótrúlega stöðugleika í hópi þeirra bestu. Björgvin Karl hefur endað inn á topp tíu á heimsleikunum undanfarin átta ár.
Í dag fara fram tvær greinar, sú fyrri nú lukkan 7.55 að íslenskum tíma en sú síðari klukkan hálf tvö í dag.