Mikill kærleikur var í leikhópnum og féllu mörg tár að sýningu lokinni. Emil í Kattholti var frumsýndur í lok árs 2021 og hefur verið fullt hús á þessum hundrað sýningum. Leikstjóri sýningarinnar er Þórunn Arna Kristjánsdóttir og er hún nú komin á fullt í næsta ævintýri þar sem hún mun leikstýra leikritinu um Fíusól og félaga hennar. Frumsýning á Fíasól gefst aldrei upp verður í desember.
Á Facebook síðu sinni segist Þórunn Arna fyrst og fremst þakklát fyrir tækifærið og traustið sem henni var sýnt í upphafi ferlisins.

Pistilinn í heild má lesa hér:
Ævintýrið sem breytti öllu fyrir mig.
Stundum þarf einhver annar að benda þér á styrkleika þína til að þú finnir hugrekki til að fara í allt aðra átt en þú hafðir nokkurn tímann hugsað þér að fara.
Ég hef alla tíð þráð það heitast að falla mjúklega inn í einhvern hóp og hef aldrei viljað taka of mikið pláss, sennilega af því að í mjög langan tíma hef ég verið svo hrædd, hrædd við að leyfa mér að vera ég sjálf. Ég hef verið föst í því að elta eitthvað sem ég held að mig eigi að langa í eða hagað mér eins og ég held að allir aðrir vilji að ég hagi mér. Sem getur verið þæginlegt að einhverju leyti, en það hefur líka gert það að verkum að smá saman týndi ég röddinni minni og þá sjálfri mér um leið.
En inn í þessari hræddu stelpu hefur alltaf búið önnur hugrökk stelpa sem veit nákvæmlega hvað hún vill, og sem betur fer tók hún yfir þegar mér bauðst að leikstýra Emil í Kattholti. Hún vissi að ég gæti gert þetta.
Það hefur svo ótrúlega margt gott gerst síðan ég lagði af stað í þetta ferðalag en það allra besta er; að ég fann röddina mína aftur, ég veit hvaða sögur mig langar til að segja, hvernig listamaður ég vil vera og hverjir styrkleikar mínir eru.
Takk elsku hjartans leikararnir mínir í Emil fyrir allt traustið sem þið sýnduð mér á meðan ég var að stíga skíthrædd mín fyrstu skref í þessu öllu saman. Takk fyrir gleðina og að leika hverja einustu sýningu með hjartað fullt af ást. Það skilaði sér svo sannarlega til allra sem komu á sýninguna.
Takk stórkoslega listræna teymi fyrir alla fegurðina og alla fagmennskuna, fyrir að fara alla leið með mér inn í þennan heim og strá töfrum ykkar yfir Kattholtið okkar.
Takk öll sem unnu sveitt á bak við tjöldin, takk fyrir að nostra við hvert smáatriði og passa upp á að eftir sérhvern vetur komi alltaf aftur vor.
Og takk, takk, takk elsku Brynhildur fyrir að treysta mér fyrir þessu risastóra verkefni og sjá ljós í mér sem ég hafði ekki áttað mig á að væri þarna.
Takk.
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá lokasýningunni á Emil.








