Þáttinn má sjá í spilaranum hér fyrir neðan:
Síðastliðin þrjú ár hafa feðgarnir sent listaverkin heimshorna á milli, frá Íslandi til Las Vegas fram og til baka, og unnið saman að þeim en Elli er búsettur vestanhafs og Egill hér heima. Hugmyndin að samsýningu kviknaði fyrir nokkrum árum síðan og segir Elli engan annan myndlistarmann en pabba sinn hafa komið til greina til að vinna með að þessu.
„Við vorum ekki sammála en við gætum verið í allan dag að tala um það. Það fyrsta sem við vorum þó sammála um var að við ætluðum ekki að sýna hvað við vorum að gera ofan í hvorn annan,“ segir Elli, en það gat tekið langan tíma að senda verkin á milli. Því var alltaf óvænt að sjá hvað beið þeirra á striganum sem kom í pósti.

Virðingin og væntumþykjan
Elli nefnir að eitt sinn hafi hann verið búinn að mála landslagsverk sem hann sendi á pabba sinn og fékk svo til baka eitthvað allt annað.
„Það var gott samt,“ skýtur Egill þá inn kíminn, sem Elli svarar með nei-i en feðgarnir hafa greinilega góðan húmor fyrir hvor öðrum.

Í ferlinu ákváðu þeir að það yrðu engar reglur og að lokum byrjaði að myndast einhver heild. Fyrir Agli var forvitnilegt að sjá hvernig þeir feðgar gætu unnið saman.
„Það er að segja verður það til einhvers? Skiptir það einhverju máli? Verða þetta allt í lagi myndir? Það sem kom skemmtilega á óvart fannst mér var að við náðum einkennum hvors annars ágætlega og það bara small saman, hægt og rólega.
Eftir stendur að jú það eru fullt af myndum og ég er ágætlega ánægður með þær, mér finnst sumar frábærar, en ég var hvað mest ánægður með að við gætum unnið saman. Mér fannst bæði virðing annars vegar og væntumþykja hins vegar í myndunum.
Það stendur ekkert neins staðar en það er bara eitthvað í gangi þar sem við sýndum hvor öðrum virðingu og væntumþykju.“
„Ég heyri í þér í fyrramálið, þú ert drukkinn“
„Ef þú hefðir sagt við mig eitt málverkið hefði endað með körfubolta, belju, árfarvegi, taflborði, pöddu, fjalli og spreyi, þá hefði ég sagt ég heyri í þér í fyrramálið, þú ert drukkinn,“
segir Elli glettinn, beinir orðum sínum í átt að Agli og bætir við:
„En svo meikar það meikar einhvern sens þegar þú ert búinn að vera að vinna í þessu svona lengi og þegar þetta er búið að flakka á milli.“

Föst í Kaliforníu
Málverkin lentu sum hver í ævintýrum á leið sinni vestur um haf.
„Þetta týndist í póstinum og var fast í Kaliforníu. Sem betur fer er ég súper genius að setja airtags inn í túburnar þannig að ég vissi nákvæmlega hvar þetta var. En svo var þetta ekki að haggast og ég var að fríka út, uppfæra símann minn reglulega og hugsa að þetta mætti alls ekki týnast.
Þá vorum við kannski búnir að vera að vinna í þessu í tvö og hálft ár og það var alveg að verða tilbúið,“ segir Elli.
Þeir ákváðu síðan að verkin væru tilbúin þegar að Egill fór í heimsókn til sonar síns til Las Vegas. Þar máluðu þeir stanslaust í nokkrar vikur með bakið í hvorn annan og áttu verðmætar stundir en Egill sá ekki einu sinni hið fræga Las Vegas Strip þar sem tíminn fór allur í listsköpunina.
Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra. Hér fyrir neðan má sjá fleiri þætti af KÚNST.
Benjamin Hardman flutti úlpulaus til Íslands fyrir rúmum sjö árum síðan með um það bil þúsund fylgjendur á Instagram og draum um að geta unnið sem ljósmyndari. Hann er nú með um 725 þúsund fylgjendur þar sem hann deilir ævintýrum sínum og sinnir ástríðu sinni á ljósmyndun og myndbandsgerð af fullum krafti.
Listakonan Rakel Tómasdóttir hefur verið sjálfstætt starfandi síðastliðin ár og er í grunnin menntuð í grafískri hönnun. Viðfangsefni hennar einkennast gjarnan af konum og kvenlíkamanum en hún hefur einnig ferðast ein víða um heiminn og sótt innblástur í ævintýri ferða sinna.
Jón Sæmundur eða Nonni í DEAD galleríi, hefur haft áhrif á íslensku list senuna í áratugi með málverkum, bolum og plötuumslögum svo eitthvað sé nefnt.
Hægt er að sjá alla þættina hér á Vísi.