Fyrri umferð kosninganna fór fram 14. maí síðastliðinn þar sem enginn fjögurra forsetaframbjóðenda náði meirihluta. Önnur umferð með aðeins tveimur efstu efstu frambjóðendunum, Erdogan og Kemel Kilicdaroglu, fer fram í dag. Kjörklefar eru búnir að loka og talning atkvæða er langt komin.
Eftir fyrstu tölur virtist vera ansi mjótt á munum en nú þegar búið er að telja um 85 prósent atkvæðanna virðist Erdogan hins vegar ætla að kreista fram sigur enn einu sinni. Talið er að formlegar niðurstöður muni þó ekki berast fyrr en á næstu dögum.
Ahmet Yener, formaður kjörstjórnar, greindi frá því um hálf fimm að eftir talningu á rúmlega helmingi atkvæða að Erdogan leiddi með 54,47 prósent atkvæðum og Kilicdaroglu væri með 45,53 prósent.
Fréttamiðlar segja Erdogan einnig leiða, ríkismiðillinn Anadolu segir hann vera með rúm 52 prósent en ANKA, sem sögðu Kilicdaroglu leiða um tíma, segja Erdogan vera með rétt rúmlega 50 prósent atkvæða.
Þjóðernissinninn umdeildi styður Erdogan
Fyrri umferð kosninganna fór fram 14. maí síðastliðinn þar sem enginn fjögurra forsetaframbjóðenda náði meirihluta.
Erdogan var ansi nálægt því með 49,24 prósent, Kilicdaroglu sem er forsetaefni sex flokka stjórnarandstöðubandalags fékk 45,07 prósent, Sinan Ogan, þjóðernissinnaður og óflokksbundinn stjórnmálamaður, fékk 5,28 prósent og Muharrem Ince sem fékk 0,4 prósent.
Hinn umdeildi Ogan greindi frá því í kjölfarið að hann hygðist styðja Erdogan sem er talið vega þungt í seinni umferðinni.