Eftir 20 ár á valdastólum var Recep Teyyip Erdogan sigurviss í ræðu sinni til stuðningsmanna í nótt og sagðist fullviss um að ná meirihluta atkvæða og tryggja sér embættið. Helsti mótframbjóðandi hans, Kemal Kilicdaroglu, segir hinsvegar ljóst að hann verði með pálmann í höndunum þegar yfir lýkur.
Enn á eftir að telja um 10 prósent atkvæða og Erdogan er aðeins með 49,4 prósent atkvæða en Kilicdaroglu kemur næstur með 44,79 prósent. Þriðji frambjóðandinn, sem mun heltast úr lestinni fyrir aðra umferð, er svo með rúm fimm prósent atkvæða.
Erdogan hefur verið nær einráður í Tyrklandi um árabil en síðustu misseri hefur hallað undan fæti. Verðbólgan mælist nú um 45 prósent og efnahagsaðgerðir forsetans hafa verið harðlega gagnrýndar.
Þá var Erdogan einnig gagnrýndur fyrir lélegt viðbragð ríkisins við jarðskjálftunum í febrúar, þar sem rúmlega fimmtíu þúsund manns fórust. Því bjuggust margir við því að forsetinn myndi tapa kosningunum nú og kemur sumur sérfræðingum nokkuð á óvart hversu mikið fylgi Erdogan fékk í fyrri umferðinni.
Síðari umferð forsetakosninganna mun fara fram 28. maí næstkomandi.