Veður

Hægir vindar, lítils­háttar væta og milt veður

Atli Ísleifsson skrifar
Ferðamenn í skoðunarferð í miðborg Reykjavíkur í gær.
Ferðamenn í skoðunarferð í miðborg Reykjavíkur í gær. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir hægum vindum og víða lítilsháttar vætu í dag, en þokuloft við ströndina.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það birti heldur til á Suðausturlandi upp úr hádegi, en stytti upp í kvöld.

Reikna má með fremur mildu veðri og getur hiti náð fimmtán til sextán stigum þegar best lætur. Hlýjast verður á Suðausturlandi í dag, en norðaustantil á morgun.

„Allmikil, vaxandi lægð við Nýfundnaland þokast norður á bóginn, en úrkomusvæði hennar nálgast landið á morgun. Hvessir þá úr suðaustri fer að rigna vestantil um kvöldið.

Úrkomusvæðið þokast áfram til austurs á föstudag og rignir þá víða um land, en helst að mestu þurrt fyrir norðan,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Vaxandi suðaustanátt, 8-13 m/s og fer að rigna sunnan- og vestanlands um kvöldið, en hægara og bjartviðri á Norðausturlandi. Hiti 9 til 16 stig, hlýjast norðaustantil.

Á föstudag: Suðlæg átt, víða 5-13 m/s og rigning, en úrkomulítið á Norðurlandi. Snýst í suðvestan 5-10 með skúrum vestantil seinnipartinn. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á laugardag: Suðlæg átt, rigning með köflum og áfram fremur milt veður.

Á sunnudag: Útlit fyrir skammvinna norðanátt, með rigningu eða jafnvel slyddu, einkum norðantil og kólnandi veðri.

Á mánudag: Vestlæg átt, skúrir eða slydduél og fremur svalt. Fer að rigna vestantil með kvöldinu.

Á þriðjudag: Líklega suðvestanátt með rigningu og hlýnandi veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×