Tindastóll vann eins stigs sigur á Val í fyrsta leiknum í úrslitaeinvígi Subway-deildarinnar í gær. Tindastóll var með yfirhöndina allan leikinn en Valsmenn áttu ótrúlega endurkomu í síðasta fjórðungnum og voru nálægt því að stela sigrinum.
Í upphafi síðari hálfleiks varð atvik undir körfu Valsmanna þar sem Kristófer Acox fékk olnboga Adomas Drungilas í höfuðið. Kristófer þurfti að fara inn í búningsklefa ásamt sjúkraþjálfara og kom síðan til baka vafinn um höfuðið.

Rætt var um atvikið í Subway Körfuboltakvöldi eftir leikinn í gær en í lýsingunni var sérfræðingurinn Hörður Unnsteinsson á því að vísa hefði Drungilas af velli. Dómararnir létu hins vegar óíþróttamannslega villu duga.
„Þetta lítur sérstaklega illa út frá því sjónarhorni sem við sáum þarna, en reglurnar þekki ég ekki,“ sagði Teitur Örlygsson annar af sérfræðingum Subway Körfuboltakvölds eftir leik í gær.
Eru þeir að meta að hann hafi slegið hann viljandi?
Kjartan Atli Kjartansson sagðist hafa reynt að heyra í nokkrum dómurum varðandi atvikið og hvað væri lagt til grundvallar þegar það væri metið en fá svör fengið.
„Það hlýtur að vera einhver spurningalisti sem þeir fara eftir,“ bætti Kjartan Atli við og Teitur velti fyrir sér hver refsingin væri ef metið væri að olnbogaskot væri viljandi.
„Þeir eru örugglega 100% með þetta á hreinu. Ef þetta er viljandi, að olnbogi er látinn vaða í höfuðið á manni, hver er refsingin? Mig langar að vita það og hvernig þeir meta þetta,“ sagði Teitur og bætti við.
„Þeir dæma óíþróttamannslega villu og ég þekki það ekki allt. Eru þeir að meta þá að hann hafi slegið hann viljandi í höfuðið? Ég held í öllum löndum þýði það brottrekstur út úr húsinu.“
Alla umræðu Kjartans Atla, Teits og Darra Freys Atlasonar í Subway Körfuboltakvöldi er hægt að sjá í spilaranum hér fyrir ofan en þar velta þeir félagar því meðal annars fyrir sér hvort atvikið verði mögulega skoðað nánar.