Körfubolti

Ætlar að heiðra minningu Bry­ant-feðginanna eftir stór­leik í nótt

Sindri Sverrisson skrifar
Klay Thompson æðir að körfu Lakers í sigrinum góða í gærkvöld.
Klay Thompson æðir að körfu Lakers í sigrinum góða í gærkvöld. AP/Godofredo A. Vásquez

Klay Thompson setti niður átta þriggja stiga skot fyrir meistara Golden State Warriors þegar þeir náðu að jafna metin í 1-1 í einvígi sínu við LA Lakers í undanúrslitum vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í gærkvöld.

Einvígið færist nú yfir til Los Angeles en vinna þarf fjóra leiki til að komast áfram í úrslitin. 

Thompson er frá Los Angeles og Mychal faðir hans spilaði með Lakers og vann tvo NBA-meistaratitla á sínum tíma. Thompson kvaðst hlakka mikið til að spila fyrir framan fjölskyldu og vini í Staples Center, og ætlar að heiðra minningu Kobe Bryant og Giönnu dóttur hans með góðri frammistöðu í næstu tveimur leikjum.

„Ég er rosalegur Kobe-stuðningsmaður. Hann var auðvitað minn helsti áhrifavaldur. Ég ætla að spila eins vel og ég get til að heiðra hann og Gigi, því ef maður hefði ekki fylgst með honum og hans þrautseigju í öll þessi ár þá væri ég ekki sá íþróttamaður sem ég er í dag,“ sagði Thompson eftir sigurinn.

Thompson gerði gæfumuninn fyrir Golden State í gær en hann skoraði alls þrjátíu stig í leiknum

Heimamenn í Golden State náðu líka að koma böndum á Anthony Davis, hetju Lakers í fyrsta leik, en hann skoraði aðeins 11 stig í gærkvöld. LeBron James skoraði 23 stig en Stephen Curry var með 20 stig fyrir Golden State og 12 stoðsendingar.

Golden State stakk af í öðrum og þriðja leikhluta og vann þá leikhluta samtals 84-47 en staðan í hálfleik var 67-56 og 110-80 þegar fjórði leikhluti var eftir.

„Þeir gerðu sínar fínstillingar. Við vissum að þeir myndu gera það, því það gera meistaralið. Þeir náðu að nýta heimavallarréttinn í kvöld,“ sagði James eftir leik.

Liðin mætast í Los Angeles annað kvöld og aftur á mánudagskvöld áður en fimmti leikur verður spilaður í San Francisco á miðvikudag.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×