Veður

Mildara loft komið og hita­tölur yfir tólf stigum nær dag­lega

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu sex til þrettán stig að deginum.
Hiti á landinu verður á bilinu sex til þrettán stig að deginum. Vísir/Vilhelm

Mildara loft er nú komið að landinu og förum við þá að sjá hitatölur skríða yfir tólf stig nánast daglega, einkum hlémegin fjalla og þar sem lítil eða engin úrkoma er.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Spáð er austlægri átt, þremur til tíu metrum á sekúndu, en tíu til fimmtán metrum á sekúndu syðst. Allvíða má reikna með bjartviðri, en skýjuðu og vætu með köflum á sunnanverðu landinu í dag.

Talsverð rigning á Suðausturlandi í kvöld og sums staðar smá væta fyrir norðan. Minnkandi úrkoma sunnantil þegar líður á morgundaginn, annars svipað veður.

Hiti verður á bilinu sex til þrettán stig að deginum.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Austan og suðaustan 5-10 m/s og dálítil rigning öðru hverju, en þurrt að kalla á Norðausturlandi. Hiti 6 til 13 stig.

Á laugardag: Austlæg átt, 3-10 m/s og dálítil væta á vestanverðu landinu og með suðurströndinni, en annars þurrt að kalla. Hiti 7 til 14 stig.

Á sunnudag, mánudag og þriðjudag: Austlægar áttir og svolítil væta með köflum, en lengst af þurrt á Norðurlandi. Áfram milt veður.

Á miðvikudag: Útlit fyrir hæga austlæga átt með smá vætu á víð og dreif. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×