Finnur Freyr hefur gert Valsliðið að Íslandsmeisturum, bikarmeisturum og deildarmeisturum á einu ári og nú er Hlíðarendaliðið komið aftur í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn.
Finnur mætti á háborðið í Körfuboltakvöldi eftir sigurinn á Þór í oddaleik undanúrslitanna í gærkvöldi og Kjartan Atli Kjartansson fékk hann meðal annars til að meta frammistöðu Valsliðsins í úrslitakeppninni til þessa.
„Mér líður bara vel. Strax farinn að hugsa um næstu seríu. Það er stutt þessi gleði eftir þessa seríu, sérstaklega þegar maður er kominn í oddaleik og veit að það er stutt í næstu,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson.
Hreinskilinn þjálfari
Valsmenn hafa tapað fyrsta leik í báðum einvígum og voru lentir 2-0 undir í undanúrslitaeinvíginu á móti Þór. Liðið kom hins vegar til baka og spilar til úrslita við Tindastól annað árið í röð. En hvaða einkunn fær Valsliðið frá þjálfara sínum fyrir spilamennskuna í úrslitakeppninni til þessa?
„Mér finnst við vera búnir að vera lélegir heilt yfir ef ég er alveg hreinskilinn,“ sagði Finnur Freyr.
„Okkur líður þannig og ég held að sjálfstraustið í liðinu var þannig að við vorum skrýtnir. Það var eitthvað hik á okkur og við vorum að ofhugsa hlutina of mikið fannst mér,“ sagði Finnur.
Ekki að vera of mikill þjálfari
„Það er ekki fyrr en við förum aðeins að láta vaða á þetta og ég kannski að sleppa tökunum. Leyfa þeim að fá að gera sitt. Ég tek þessa tvo fyrstu leiki í þessari seríu á mig fyrir að vera flækja hlutina og reyna að vera einhver of mikill þjálfari,“ sagði Finnur.
„Stundum verður maður að treysta á það sem maður hefur og treysta á það sem við erum búnir að vera að gera. Í staðinn að ætla að fara að umbylta öllu til þess að spila á móti einhverjum einum, tveimur leikmönnum eða á móti liðum þá þurfum við bara að treysta á okkar. Það fannst mér stærsti munurinn í breytingunni hjá okkur,“ sagði Finnur.
Stólarnir besta liðið í úrslitakeppninni
Hvað sér hann í Stólunum sem mæta Valsmönnum í úrslitaeinvíginu?
„Bara besta liðið í úrslitakeppninni hingað til. Frábær stemmning, stórkostlegt lið og lið þar sem Pavel [Ermolinskij, þjálfari Tindastóls] er búinn að fá til að ná sínu potentíal. Þeir eru búnir að vera með frábæran mannskap í allan vetur en voru með þjálfara sem var að reyna að flækja hlutina of mikið,“ sagði Finnur.
„Pavel er búinn að gera það sem hann gerir best. Fara inn í lið og kreista það besta út úr öllum,“ sagði Finnur.
Það má horfa á allt viðtalið við Finn Frey hérna fyrir neðan.