Íbúum Hveragerðisbæjar hefur fjölgað ört síðustu ár og eru nú komnir upp í þrjú þúsund og tvö hundruð manns. Ný hverfi hafa verið byggð og mikil umsvif þegar sala lóða er annars vegar. Geir Sveinsson, sem er nýr bæjarstjóri í Hveragerði, segir bæinn pínu falda perlu.
„Fólk er að átta sig á því og jú, smitast kannski að einhverju leyti á því ástandi, sem er á höfuðborgarsvæðinu vegna skorts á húsnæði. En fólk er að átta sig, það er stutt yfir heiðina og fólk finnur það að koma hingað að það er í takt við náttúruna og þetta er fjölbreytilegt, sem er í bænum. Fólk er kannski að sækja í þetta og það hefur verið að gerast. Og það hefur ekki verið jafn mikil fjölgun nokkurs staðar á landinu eins og í Hveragerði hlutfallslega síðustu tvö ár,“ segir Geir.
En er hann með einhverjar tölur?
„Já, þetta eru sirka sjö prósent, sem er að fjölga um hérna síðustu tvö árin og enn er að fjölga.“
Geir segir að alltaf fylgi vaxtarverkir svona mikilli íbúafjölgun enda þurfi allir innviðir og annað að vera í takt við íbúafjölgunina.

En á Hveragerðisbær nóg land fyrir fleiri nýjar íbúðalóðir og þar með nýja íbúa?
„Það er kannski það, sem Hveragerði er kannski ekki þekktast fyrir að eiga nóg land en við eigum það þó alveg. Hveragerði hefur verið frekar strjálbýlt í gegnum tíðina og við ætlum að reyna að halda því. Sérkenni Hveragerðis er lágreist byggð og við viljum reyna að halda í það sömuleiðis en það eru samt sóknarfæri innan bæjarins. Svona gróft þá erum við búin að gera áætlun upp á fjögur hundruð til fimm hundruð íbúðir, sem mögulegt er að koma upp innan Hveragerðis á ekki svo löngum tíma,“ segir Geir.
