Fyrir leiki dagsins sat Bayern Munchen á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar. Eftir að hafa dottið út úr Meistaradeild Evrópu í miðri viku vonaðist Thomas Tuchel, svo til nýráðinn knattspyrnustjóri Bæjara, vafalaust eftir því að lið sitt myndi rétta úr kútnum í dag en svo varð ekki raunin.
Bayern Munchen komst yfir í leik dagsins með marki frá Sadio Mané á 29.mínútu eftir stoðsendingu frá Joao Cancelo og reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins en í þeim seinni hrundi leikur lærisveina Tuchel.
Á níu mínútna kafla náðu leikmenn Mainz að skora þrjú mörk og snúa töpuðum leik yfir í sigur, hreint út sagt ótrúlegar vendingar en svo fór að leikar enduðu með 3-1 sigri Mainz.
Fagmannleg frammistaða Dortmund
Leikur Mainz og Bayern fór fram í hádeginu í dag og lauk nokkrum klukkustundum áður en leikur Dortmund og Frankfurt hófst. Með sigri myndi Dortmund hrifsa toppsætið af Bayern og sú varð raunin.
Dortmund vann afar þægilegan 4-0 sigur á Frankfurt. Það var Jude Bellingham sem skoraði fyrsta mark leiksins á 19. mínútu og mörk frá Donyell Malen og Mats Hummels í kjölfarið sáu til þess að Dortmund fór með þriggja marka forskot inn til búningsherbergja í hálfleik.
Donyell Malen bætti síðan við öðru marki sínu og innsiglaði 4-0 sigur heimamanna á 66.mínútu.

Sigur Dortmund sér til þess að liðið situr með eins stigs forystu (60 stig) á Bayern Munchen (59 stig) á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar þegar að bæði lið hafa leikið 29 leiki.
Í öðrum leikjum dagsins í þýsku úrvalsdeildinni ber þar helst að nefna að Werder Bremen bar sigurorðið af Herthu Berlin á útivelli 4-2, Köln hafði betur gegn Hoffenheim 3-1 og Wolfsburg skoraði fimm mörk í 5-1 sigri á Bochum