Fótbolti

Þjálfarinn sagður rekinn eftir megna óánægju Ronaldos

Sindri Sverrisson skrifar
Rudi Garcia með Cristiano Ronaldo eftir að stórstjarnan gekk í raðir Al Nassr.
Rudi Garcia með Cristiano Ronaldo eftir að stórstjarnan gekk í raðir Al Nassr. Getty

Dagar franska þjálfarans Rudi García sem þjálfari Al Nassr í Sádi-Arabíu virðast vera taldir. Spænska blaðið Marca fullyrðir að hann hafi þegar verið rekinn og vísar í sádi-arabíska miðla. Ástæðan mun meðal annars vera megn óánægja aðalstjörnu liðsins, Cristiano Ronaldo, og fleiri leikmanna í garð Frakkans.

Ronaldo kom til Al Nassr frá Manchester United eftir HM í Katar í desember, og skrifaði undir samning sem tryggir honum langhæstu laun knattspyrnuheimsins í dag eða um það bil 30 milljarða króna á ári.

Ronaldo hefur skorað ellefu mörk í tíu leikjum en það hefur ekki dugað til fyrir Al Nassr sem er nú þremur stigum á eftir toppliði Al Ittihad þegar sjö umferðir eru eftir af sádi-arabísku deildinni. Ronaldo var sérstaklega ósáttur eftir markalaust jafntefli við Al Feiha í síðasta leik.

Í frétt spænska blaðsins Marca segir að þó að úrslit leikja eigi sinn þátt í brotthvarfi García þá hafi samband hans við leikmenn ráðið úrslitum, og deila við þá í búningsklefanum.

Spænska blaðið AS segir auk þess að Ronaldo hafi haldið leynifund með stjórnendum Al Nassr þar sem hann lýsti óánægju sinni með störf Garcia.

García tók við Al Nassr síðasta sumar af Miguel Ángel Russo. Þessi 59 ára gamli þjálfari hefur áður stýrt liðum á borð við Lille, Roma, Marseille og Lyon.

Uppfært 10.30: Bandaríski miðillinn ESPN segist hafa heimildir fyrir því að García fái einn leik til viðbótar til þess að bjarga starfi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×