Jóakim er yngri sonur Margrétar Þórhildar Danadrottningar og segir hann í samtali við DR að hann og fjölskyldan hlakki mikið til að flytja vestur. Hann taki við stöðunni í sendiráðinu þann 1. september næstkomandi.
Í frétt DR segir að ráðningin sé til þriggja ára og með möguleika á framlengingu. Þau munu flytja til Bandaríkjanna í sumar.
Jóakim hefur að undanförnu starfað á skrifstofu varnarmála í danska sendiráðinu í frönsku höfuðborginni París. Hann segir það hafa verið forréttindi að fá vinna að hagsmunum Danmerkur í París en að nú beini hann sjónum vestur um haf til að vinna að samstarfi Danmerkur og Bandaríkjanna á sviði varnarmála.
Jóakim og Mary fluttu með börnum sínum til Parísar fyrir fjórum árum síðan.
Mikið var fjallað um Jóakim og börn hans í vetur þegar Margrét Þórhildur Danadrottning tilkynnti að börn Jóakims myndu missa titla sína sem prinsa og prinsessur.
Hinn 53 ára Jóakim á fjögur börn – Nikolai og Felix sem hann eignaðist með Alexöndru greifynju – og svo Hinrik og Aþenu sem hann á með Mary.