Fótbolti

Ó­­vissa ríkir um fram­­tíð Gavi vegna skráningar­vesens og bar­áttu Barcelona við La Liga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Xavi og Gavi.
Xavi og Gavi. EPA-EFE/Enric Fontcuberta

Hinn gríðarlegi efnilegi Gavi gæti verið á leið frá Barcelona á frjálsri sölu þar sem samningur hans við félagið gæti verið ógildur. Málið er flókið og er hluti af ástæðunni bakvið þeirrar miklu spennu sem nú ríkir milli Barcelona og spænsku úrvalsdeildarinnar, La Liga.

Hinn 18 ára Gavi hefur verið frábær með Barcelona á leiktíðinni og er stór ástæða þess fyrir að liðið virðist ætla að endurheimta spænska meistaratitilinn. Þá hefur hann spilað 17 A-landsleiki frá árinu 2021.

The Athletic greinir frá því að þegar Gavi skrifaði í september síðastliðnum undir framlengingu á samning sínum til ársins 2026 var hann enn „unglingaliðsleikmaður“ þó hann væri að spila með aðalliði Barcelona og A-landsliði Spánar. Í samningnum var klásúla þess efnis að hann gæti farið frítt ef Barcelona myndi ekki skrá hann sem leikmann aðalliðsins fyrir 30. júní 2023.

Það er ekki hægt að breyta stöðu leikmanna nema þegar félagaskiptaglugginn er opinn en Börsungar gátu ekki skráð Gavi í janúar þar sem La Liga sagði einfaldlega að samningurinn myndi þýða að félagið væri að brjóta fjárhagsreglur deildarinnar.

Barcelona fór með málið fyrir dómstóla og sagði að La Liga væri að gera sitt besta til að áreita félagið. Fór það þannig að Barcelona hafði betur en þurfti þó að skila inn nýrri umsókn – sem stæðist regluverk deildarinnar – innan 20 vinnudaga.

Þann 2. mars síðastliðinn skilaði Barcelona loks inn umsókninni, degi of seint samkvæmt La Liga. Á mánudaginn 13. mars staðfesti dómstóllinn að Barcelona hefði ekki skilað umsókninni inn á tilætluðum tíma.

Barcelona fær fimm daga til að útskýra mál sitt. Takist Börsungum ekki að fá ákvörðuninni hnekkt þá verður Gavi skráður sem unglingaliðsmaður á nýjan leik og gæti því farið á frjálsri sölu í suamr. Félagið stendur fast á sínu og segist hafa skilað inn öllum pappírum á réttum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×