Arnar hætti að velja Albert í landsliðið síðasta haust og gagnrýndi leikmanninn fyrir hugarfar hans í verkefnum með landsliðum.
„Fyrir mér er það þannig að það að vera í íslenska landsliðinu er mikill heiður og það kallar á hundrað prósent hugarfar, alla daga og alltaf. Þú ert annað hvort hundrað prósent með okkur í þessu eða ekki,“ sagði Arnar á blaðamannafundi og bætti við að hann væri ekki tilbúinn að velja Albert aftur í landsliðið fyrr en hann væri tilbúinn að vera hluti af liðsheild íslenska liðsins.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins tók Arnar upp símann á dögunum og hringdi í Albert sem hefur spilað vel fyrir Genoa í ítölsku B-deildinni að undanförnu. Það gæti því farið svo að Albert verði í landsliðshópnum fyrir leikina gegn Bosníu og Liechtenstein sem verður kynntur á morgun.
Í vetur hefur Albert skorað níu mörk og lagt upp fjögur í 29 leikjum fyrir Genoa í deild og bikar. Albert hefur leikið 33 landsleiki og skorað sex mörk.