„Jæja..Eftir miklar vangaveltur, andvökunætur og allskonar pælingar hef ég tekið þá ákvörðun að leggja skóna og hanskana á hilluna! Ákvörðunin er mjög svo erfið, ein sú erfiðasta sem ég hef tekið en að sama skapi er hún góð. Ég er gríðarlega stolt af því sem ég hef áorkað á mínum ferli, bæði sem einstaklingur og með mínum liðum!“ skrifaði Sandra á Instagram.
„Ég er þakklát fyrir allar þær dýrmætu stundir og ævintýri sem ég hef upplifað, þau hlutverk sem ég hef fengið, fyrir alla þá sem ég hef unnið með á einn eða annan hátt, þann dýrmæta vinskap sem hefur myndast og fylgir mér að eilífu og fyrir allan þann stuðning sem ég hef fengið frá fólkinu mínu öllu - við ykkur segi ég TAKK! Ég hlakka til að byrja næsta kafla í mínu lífi og takast á við þau ævintýri sem bíða mín! Takk fyrir mig!“
Sandra, sem er 36 ára, lék einn af þremur leikjum Íslands á Pinatar mótinu á Spáni í síðasta mánuði. Hún lék alls 49 landsleiki, þar af alla þrjá leiki íslenska liðsins á EM síðasta sumar.
Sandra lék 331 leik í efstu deild á Íslandi fyrir Þór/KA/KS, Stjörnuna og Val og skoraði eitt mark. Hún varð sex sinnum Íslandsmeistari með Val og Stjörnunni og fjórum sinnum bikarmeistari. Þá lék hún eitt tímabil í Svíþjóð með Jitex.
Í fyrra, á sínu síðasta tímabili, varð Sandra tvöfaldur meistari með Val, spilaði frábærlega með íslenska landsliðinu og var á meðal tíu efstu í kjörinu á Íþróttamanni ársins.