Samkvæmt heimildum ESPN þá hefur vogunarsjóðurinn Elliott Management boðist til að aðstoða Glazers-fjölskylduna við það að eiga Manchester United áfram með því að leggja til fjármagn.
Þessi vogunarsjóður frá New York sýndi nefnilega áhuga á því að fjárfesta í enska úrvalsdeildarfélaginu og það gæti komið sér vel fyrir Glazers-fjölskylduna.
Glazers offered route to staying at Man Utd by US hedge fund https://t.co/55InVhtdJ0
— Mark Ogden (@MarkOgden_) February 19, 2023
Glazer-bræðurnir Joel og Avram skipa sér sess á flestum listum yfir óvinsælustu eigendur hjá fótboltaliði í heiminum en stuðningsmannahópar Manchester United hafa kallað eftir því í mörg ár að fá nýja eigendur.
Í nóvember síðastliðnum tilkynntu bræðurnir að þeir hefðu ráðið fyrirtækið, sem sá um söluna á Chelsea, til að kanna áhugann á því að kaupa Manchester United.
Glazers-fjölskyldan hefur áður hafnað að minnsta kosti tveimur tilboðum í félagið samkvæmt heimildum ESPN. Það lítur út fyrir að þeir hafi meiri áhuga á að tryggja sér nýja fjárfestingar í félaginu í stað þess að gefa það alveg frá sér.
Nú komu hins vegar tilboð í félagið frá mjög vel stæðum aðilum sem báðir hafa sagt frá því að þeir séu miklir stuðningsmenn Manchester United.
Breski auðjöfurinn Jim Ratcliffe og Katarbúinn Jassim Bin Hamad Al Thani lögðu báðir inn tilboð áður en fresturinn rann út á föstudaginn var.
Manchester United er á tímamótum og kallar á mikla fjárfestingar í félaginu eins og í leikvanginum Old Trafford sem og í nýju æfingasvæði. Þar hafa menn gagnrýnt United fyrir að hafa setið eftir gagnvart öðrum félögum í Englandi.