Victor Osimhen kom Napoli yfir á 17. mínútu og staðan var 1-0, heimamönnum í vil, allt þar til Stephan El Shaarawy jafnaði þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Varamaðurinn Giovanni Simeone var svo hetja Napoli en hann skoraði sigurmark liðsins á 86. mínútu.
Þrátt fyrir tapið var Mourinho ánægður með strákana sína og hvernig þeir spiluðu gegn toppliði deildarinnar. Og eftir leikinn birti hann hópmynd af Roma-liðinu sem var tekin í búningsklefa þess.
„Þvílíkt lið, hvílíkur andi, þvílík frammistaða. Áfram gakk. Sjáumst á Ólympíuleikvanginum á miðvikudaginn,“ skrifaði Mourinho við myndina og vísaði þar til næsta leiks Roma sem er gegn Cremonese í átta liða úrslitum ítölsku bikarkeppninnar.
Þrátt fyrir að Mourinho væri sáttur voru leikmenn Roma ekki upplitsdjarfir á hópmyndinni og sumir hreinlega með skeifu.
Roma er í 6. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar en aðeins einu stigi á eftir erkifjendum sínum í Lazio sem eru í 3. sætinu og þremur stigum frá Inter sem er þar fyrir ofan.