Mykhailo Mudryk hefur verið töluvert í fréttunum síðustu vikurnar og lengi vel leit út fyrir að hann væri á leið til Arsenal sem höfðu verið að eltast við hann í töluverðan tíma.
Á föstudag bárust síðan skyndilega fréttir af því að Chelsea væri komið í bílstjórasætið og væri við það að stela Mudryk af nágrönnum sínum í Lundúnum.
Join us in welcoming our new number 15, Mykhailo Mudryk! pic.twitter.com/QiNPzWPNFY
— Chelsea FC (@ChelseaFC) January 15, 2023
Sú frétt var síðan staðfest í dag. Mudryk er búinn að skrifa undir hjá Chelsea en þessi rúmlega tvítugi Úkraínumaður gerði átta og hálfs árs samning við Chelsea og er því samningsbundinn þeim þar til í júní 2029.
Mudryk skoraði níu mörk í tuttugu og níu leikjum fyrir Shaktar Donetsk og hefur þar að auki leikið átta landsleiki fyrir Úkraínu.
Mudryk er fimmti leikmaðurinn sem Chelsea fær til liðs við sig í janúarglugganum. Joao Felix, Benoit Badiashile, David Fofana og Andrey Santos eru hinir fjórir og ljóst að nýir eigendur ætla sér stóra hluti þó svo að gengið hafi verið dapurt að undanförnu.