Eldsvoðinn í Kaldaseli í Seljahverfi í Breiðholti vakti mikla athygli í byrjun árs 2021. Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út en húsið var þegar orðið alelda. Húsráðanda tókst að koma sér út en altjón varð á eigninni.
Nú tveimur árum síðar hefur húsið verið endurbyggt með ótrúlegum hætti og er það til sölu. Húsið hefur verið endurskipulagt, öll lóðin endurnýjuð og bílskúrinn innréttaður sem stúdíóíbúð. Sjálft húsið er rúmir 240 fermetrar og stúdíóíbúðin 28 fermetrar. Húsið er á tveimur hæðum en undir húsinu er svo óútgrafið rými sem býður upp á ýmsa möguleika. Ofan við húsið er rúmgóður pallur með heitum potti.
Á neðri hæð hússins er að finna anddyri, eldhús, borðstofa, arinstofa, tvö barnaherbergi, baðherbergi og þvottahús. Á efri hæðinni eru sjónvarpsrými, tvö barnaherbergi og hjónasvíta með fataherbergi og baðherbergi.
Ásett verð er 169,9 milljónir en fasteignamat eignarinnar er 114,9 milljónir.
Hér að neðan má sjá myndir af húsinu en nánari upplýsingar um eignina er hægt að finna á fasteignavef Vísis.















