Heiðar Örn sagði sögu sína í þáttunum Baklandið á Stöð 2 í gærkvöldi. Heiðar Örn, sem er þriggja barna faðir, rifjaði meðal annars upp útkall þegar ferðamaður lenti í helli með mikilli gasmengun. Fljótlega kom í ljós að ferðamaðurinn var látinn. Aðgerðin breyttist því úr björgunarútkalli í það að sækja lík hins látna. Heiðar Örn var hluti af fjögurra manna teymi sem réðst í verkið.
Á þessum tíma var Heiðar bæði í slökkviliðsnámi og í hundrað prósent vinnu sem sjúkraflutningamaður. Hann var í námi á daginn og vann á kvöldin og um nóttina. Þegar að útkallinu kom hafði Heiðar ekki sofið í yfir tvo sólarhringa. Fjórmenningarnir voru allir með súrefnisgrímu og súrefniskút á bakinu og höfðu aðeins súrefni til að athafna sig í ákveðinn tíma inni í hellinum.
Af hverju er ég ekki búinn að gifta mig?
Heiðar varð að snúa við fyrr en hinir þrír og ganga út úr hellinum vegna stöðuna á hans súrefniskúti. Þegar hann gekk til baka festi hann sig með aðra löppina ofan í sprungu í íshellinum. Þarna var hann í raun einn og yfirgefinn og lýsir því í þættinum að ef hann hefði tekið af sér grímuna þá hefði farið illa.
„Ég man að það gerðist allt mjög hratt á þessum tíma og ég horfði á loftmælinn minn rjúka niður. Ef ég hefði tekið af mér grímuna þá hefði ég þurft einn til tvo andardrætti til þess að deyja. Ég man ég hugsaði, Heiðar hvað ert þú að pæla? Þú ert búinn að vera vakandi í tvo og hálfan sólarhring og engan veginn í standi til að takast á við þessar aðstæður og nú situr þú fastur,“ segir Heiðar og heldur áfram.
„Ég fór líka að hugsa fyrst og fremst hvað ég væri mikill vitleysingur. Af hverju væri ég ekki búinn að gifta mig, ég gleymdi að kyssa konuna bless, ég er ekki búinn að knúsa börnin mín í þrjá daga af því að það er svo mikið að gera. Það var allt sem maður rifjaði upp á þessum örfáum sekúndum sem maður leyfði sér það. Ég man fyrst og fremst hvað ég var svekktur og leiður út í sjálfan mig,“ segir Heiðar.
Hér að neðan má sjá atriði úr þættinum og hvernig Heiðar kom sér út úr aðstæðunum.