Nú eru aðeins átta dagar síðan heimsmeistaramótinu lauk og því ekki óeðlilegt að einhverjir leikmenn séu þreyttir eftir langt og strangt mót.
Conte hefur nú þegar staðfest það að þeir leikmenn liðsins sem tóku þátt í úrslitaleik HM þann 18. desember fái hvíld. Tottenham verður því án fyrirliðans Hugo Lloris og miðvarðarins Christian Romero.
„Ég er ekki mjög glaður,“ sagði Conte. „Á einn hátt er ég glaður af því að frá mínu liði eru 12 leikmenn að spila á heimsmeistaramótinu, sem þýðir að við erum að gera eitthvað rétt, getum verið samkeppnishæfir og farið að keppa um einhverja titla.“
„En það er eðlilegt þegar þú ert með svona marga leikmenn á móti sem þessu, sérstaklega á miðju tímabili, að þú lendir í vandræðum með leikjaálag og annað líkamlegt vesen.“
„Það er ómögulegt að gefa þeim langa hvíld. Þeir leikmenn sem fóru ekki á HM hafa verið að æfa vel seinustu fjórar vikur og nú eru þeir í frábæru formi. Við höfum unnið mikið í tæknilegum hlutum leiksins, sem og líkamlegum. Nú eru þeir komnir á það stig að vera í betra standi en leikmennirnir sem fóru á HM.“
„Þess vegna held ég að ég þurfi að taka sem besta ákvörðun fyrir leikinn gegn Brentford. Á einum endanum er ég með leikmenn sem ég vann með seinustu fjórar vikur og á hinum endanum er ég með leikmenn sem æfðu á heimsmeistaramótinu og eru ekki í sínu besta standi eins og er,“ sagði Conte að lokum.
Tottenham sækir Brentford heim klukkan 12:30 í dag. Liðið situr í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 29 stig eftir 15 leiki, átta stigum á eftir erkifjendum sínum í Arsenal sem tróna á toppnum.