Fótbolti

Van Gaal útilokar ekki að taka við Portúgal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tekur Louis van Gaal við portúgalska landsliðinu?
Tekur Louis van Gaal við portúgalska landsliðinu? getty/Juan Luis Diaz

Louis van Gaal útilokar ekki að hætta við að hætta í þjálfun og taka við portúgalska landsliðinu.

Van Gaal hætti sem þjálfari hollenska landsliðsins eftir að það féll úr leik fyrir Argentínu í átta liða úrslitum á HM í Katar. Hann hafði gefið það út að þetta yrði síðasta þjálfarastarf hans.

En hinn 71 árs Van Gaal er ólíkindatól og virðist ekki vera búinn að útiloka endurkomu í þjálfun. Hann hefur verið orðaður við portúgalska landsliðið sem er í þjálfaraleit og var spurður út í þann orðróm í hollenskum útvarpsþætti.

„Ég er hættur aftur en f þeir hringja hlusta ég. Það er það eina sem ég get sagt,“ sagði Van Gaal sem á hús í Portúgal og dvelur stóran hluta af árinu þar.

Hann tók í þriðja sinn við hollenska landsliðinu eftir EM í fyrra. Van Gaal stýrði Hollandi í tuttugu leikjum; fjórtán unnust og sex enduðu með jafntefli. Hann var einnig við stjórnvölinn hjá hollenska landsliðinu á árunum 2000-01 og 2012-14.

Meðal annarra sem hafa verið orðaðir við þjálfarastarfið hjá Portúgl eru José Mourinho, André Villas-Boas og Paolo Fonseca.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×