Alvöru ítalskt: „Ég lofa að vera þér alltaf trúr, í gleði og sársauka…“ Rakel Sveinsdóttir skrifar 4. desember 2022 08:16 Síðustu misserin hefur verið nokkuð um það að fólk velji að halda brúðkaup á Ítalíu. Í dag fáum við að upplifa ítalskt brúðkaup á Ítalíu eins og þau gerast fallegust en þann 2.september síðastliðinn gengu í hjónaband Valentina Gonzales og Riccardo Loss. Vísir fékk leyfi til að skrifa um brúðkaupið, sem mögulega gefur innblástur og hugmyndir til þeirra sem dreymir þennan ítalska draum. Vísir/Daniele Sicilia „Ég lofa að vera þér alltaf trúr, í gleði og sársauka, í heilsu og veikindum, í auði og fátækt og að elska þig og heiðra alla daga lífs míns. Ég lofa að gæta þín og næra ástarloga mína til þín á hverjum degi, svo sá logi muni vaxa og dafna það sem eftir er ævi minnar,“ segir brúðguminn Riccardo Loss við brúði sína. Kveikir síðan á kerti og leggur í litla skál með olíu. Brúðurin, Valentina Gonzales er án efa langfallegasta konan á svæðinu, tekur míkrafóninn og endurtekur orð síns heittelskaða: „Ég lofa að vera þér alltaf trú, í gleði og sársauka, í heilsu og veikindum…..“ Mínútum síðar eru Valentina og Riccardo orðin hjón. Við erum stödd í brúðkaupi á Ítalíu. Ekki íslensku brúðkaupi á Ítalíu eins og verið hefur svo vinsælt síðustu misserin, heldur ítölsku brúðkaupi á Ítalíu. Án efa því fallegasta sem blaðamaður hefur nokkru sinni upplifað. Brúðkaupið er ekki hefðbundið ítalskt brúðkaup að því leytinu til að það fór ekki fram í kaþólskri kirkju né samkvæmt kirkjuathöfnum kaþólskrar trúar. Því brúðurin er kaþólsk en brúðguminn babtistatrúar. Kristin trú hvoru tveggja en ekki sömu siðir. Í dag fáum við að upplifa ítalskt brúðkaup eins og þau gerast fallegust. Brúðkaupið var haldið á fallegri eyju, Ustica sem er rétt fyrir utan Sikiley. Um þrjátíu stiga hiti var þennan föstudag en á Ítalíu eru brúðkaup haldin alla vikudaga, ekki aðeins á laugardögum. Margt er líkt með venjum, en margt ólíkt. Til dæmis fyrirkomulagið í kringum gjafir, hönnun á lógói fyrir brúðkaup og margt fleira sem við þekkjum ekki.Vísir/Daniela Sicilia Svo margt öðruvísi en á Íslandi Brúðkaup Valentinu og Riccardo verður lengi í minnum haft hjá þeim 120 gestum sem í það var boðið. Enda vægast sagt glæsilegt þar sem öllu var tjaldað til og það á afar fallegum stað; eyjunni Ustica. Margt er líkt með ítölskum brúðkaupum eins og þeim íslensku eða hjá öðrum þjóðum. Eins og til dæmis það að brúðurin sé hvítklædd eða að eftir dýrindis matarveislu sé brúðkaupsterta og dans. En margt er öðruvísi í siðum og venjum. Til dæmis giftir fólk sig á Ítalíu á öllum dögum. Brúðkaup Valentinu og Riccardo var haldið föstudaginn 2.september síðastliðinn. Að gifta sig á mánudegi, þriðjudegi og svo framvegis er aðeins háð vali fólks, en ekki aðeins bundið við laugardaga eins og flest brúðkaup eru hér. Þá er gjafafyrirkomulagið öðruvísi. Því gjafir eru gefnar fyrir brúðkaup. Þetta þýðir að ef þú til dæmis gefur brúðhjónum kaffistell eða málverk gætir þú hitt verðandi brúðhjón fyrir giftingu og ýmist drukkið kaffi úr nýja stellinu eða horft á myndina þegar hengda upp á vegg. Eitt af því sem nokkuð er nokkuð algengt á Ítalíu er að fyrir hvert brúðkaup er hannað lógó. Og ákveðið þema. Í brúðkaupi Valentinu og Riccardo var ólívutré undirstaðan í öllu þema; til dæmis litavali, hönnun lógós og fleira. Fyrir brúðkaup fengu veislugestir boðskort þar sem sjá mátti hið sérhannaða lógó. Í umslaginu með boðskortinu var líka lítið brúnt umslag. Í þessu umslagi var texti um ólívutréð og hvað það er sagt tákna. Því ólívutré er ótrúlega þrautseig planta, sem getur staðið af sér verstu veður og hamfarir, jafnvel eldsvoða. Þessi þrautseigja ólívutrésins er því sögð standa fyrir stöðugleika, velmegun og eilífðina. Allt orðað á svo fallegan hátt að vel var hægt að yfirfæra textann yfir á þá eiginleika sem einkenna góð hjónabönd. Í umslaginu var einnig lítið fræ til að gróðursetja ólívutré. Þá var þar nafnspjald með upplýsingum um vefsíðu brúðkaupsins. Því á Ítalíu að hönnuð sé einföld vefsíða fyrir brúðkaupið. En áður en við höldum áfram að heyra um brúðkaupið, er ekki úr vegi að kynnast aðeins betur brúðhjónunum sjálfum. Þegar styttist í stóru stundina: Besta vinkonan og svaramaður Valentinu, Giulia La Paglia, aðstoðar brúðurina á meðan brúðguminn bíður en svo skemmtilega vildi til að Giulia greip brúðarvöndin síðar um kvöldið. Neðri myndir: Mæður með börnum sínum, síðustu mínúturnar fyrir giftingu. Í athöfninni lásu mæðurnar upp úr biblíunni en algengur brúðarsiður er að vinir eða vandamenn lesi, flytji ljóð eða ræðu. Vísir/Daniele Sicilia Bónorð í kjölfar Covid Svo skemmtilega vill til að hjónin eru fædd sama dag: 25.apríl. Nema að Valentina er fædd árið 1989 en Riccardo árið 1987. Valentina fæddist á Sikiley en ólst upp í Trento, höfuðborg Trentino héraðs á Norður Ítalíu. Riccardo er fæddur og uppalinn í Rovereto í Trentino. Parið kynntist á ráðstefnu árið 2018, þar sem Valentina, sem starfar sem félagsfræðingur hjá Trento borg, var að vinna en Riccardo, sem starfar sem valdeflandi ungmennafulltrúi, hélt erindi. Með þeim tóku ástir og segir parið að það um tveimur mánuðum síðar, eftir tíð samskipti og stefnumót, hafi þau verið orðin formlegt kærustupar. Valentina viðurkennir samt að hún hafi snemma séð fyrir sér að Riccardo væri hinn eini sanni og svo má líka segja um hann. Þegar hörðustu Covid reglur voru settar á Ítalíu vildi svo til að Riccardo var staddur heima hjá Valentinu. Og varð fyrir vikið innlyksa þar. Því má segja að formleg sambúð ungu hjónanna hafi í raun hafist vegna Covid. Í febrúar á þessu ári voru Valentina og Riccardo í heimsókn hjá vinafólki upp til fjalla í Trentino. Þar sem þau sátu á bar kom upp óvænt en afar rómantísk stund. Því þegar lagið On Every Street með Dire Straits var spilað segir Valentina við Riccardo: „Ef við giftumst einhvern tíma væri ég til í að þetta lag yrði spilað í brúðkaupinu okkar…“ Og Riccardo svarar: En hvers vegna að bíða? Hvers vegna giftum við okkur ekki núna?“ Þar með var boltanum kastað. Um kvöldið sögðu þau nánustu vinum frá áformunum og næstu daga fjölskyldu sinni. „Við hugsuðum bara með okkur. Ef við lifðum það af að vera innilokuð í Covid mánuðum saman í pínkulitlu rými, værum við tilbúin í hjónaband,“ segir Valentina og hlær. Hér má sjáhönnunina miðað við ólívuþema brúðkaupsins en það var Chiara Dapor, vinkona brúðgumans sem sá um alla hönnun; lógó, boðskort, vefsíðu og fleira. Þá fengu brúðargestir ýmsar gjafir sem voru merktar upphafsstöfum brúðhjónanna. Blævæng í athöfninni fyrir konur, grappakrús eftir listamanninn Nino Parucca og möndlugjöf í poka, en möndlugjöf er alltaf gefin í stærri athöfnum, svo sem skírnum, fermingum og brúðkaupum.Vísir/Daniele Sicilia Undirbúningurinn Móðir og móðurfjölskylda Valentinu býr í Trento en fjölskylda Riccardo í Rovereto. En frá því að Valentina var lítil hefur hún dvalið í lengri og skemmri tíma á sumrin á Ustica í sumarhúsi föður síns og seinni konunni hans, Calcedonio Gonzales lækni og Grétu Björk Valdimarsdóttur. Snemma barst í tal að halda brúðkaupið á Ustica. Enda eyjan rómuð fyrir fegurð og fallegt sólarlag. Þetta þýddi þó að langflestir gestir kæmu langt að. Ýmist frá Norður Ítalíu eða þaðan af lengra. Sumir gesta þó staddir á Ustica eða í Palermo á Sikiley. Strax var hafist handa við undirbúning: Athöfnin sjálf skyldi haldin í garðinum hjá föður Valentinu: Því þar stendur eitt ólívutré. Á stóru bílaplani yrði boðið upp á fordrykk og litla smárétti. Á stærsta veitingastað eyjunnar, Il Faraglione eða Lóndröngum eins og nafnið þýðir, skyldi veislan haldin. Nú þurfti að hafa hraðar hendur: Að hanna lógó, prenta boðskort, búa til vefsíðu. Undirbúa garðinn þar sem athöfnin ætti að vera. Og hvernig það væri framkvæmanlegt að sæta allan þennan fjölda hjá ólívutrénu. Að ákveða vín og matseðil. Eitt sem einkennir ítalskar veislur er möndlugjöf fyrir gesti, en möndlugjöf er gefin í skírnarveislum, fermingarveislum og í brúðkaupum. Mandlan er í raun lítið súkkulaðimöndlunammi, svona eins og hálfgerður konfekt moli nema moli sem bráðnar ekki. Sykurhúðað súkkulaði með möndlu inn í. Fimm möndlumolum er pakkað í lítinn poka og er mikið lagt upp úr að möndlugjöfin sé sem fallegust. Jafn mikið föndur og hún er. Þá er Valentina sjálf mjög listræn og það mátti sjá á mörgu sem einkenndi allt tengt brúðkaupinu. Til dæmis málaði Valentína fallega á litla steina nöfn allra gesta og þannig voru borðin sætamerkt. Steinarnir voru týndir í fjörum Ustica. Borðin voru líka kennd við heiti þekktra kennileita á Ustica, svo sem hella, strandstaða og fleira. Að vera með borðaþema sem nöfn er algengur ítalskur siður. Gestir fengu líka alls kyns gjafir. Á stólum gesta í garðinum voru sérhannaðir blævængir á öðrum hvorum stól: Fyrir konur. Enda heitt í veðri á þessum árstíma. Blævængirnir voru merktir upphafstöfum brúðhjónanna. Á veisluborðum voru sérhannað litlar grappakrúsir eftir einn þekktasta keramiklistamann Sikileyjar, Nino Parrucca. Grappakrúsirnar eru merktar upphafsstöfum brúðhjónanna. Ungar konur og stúlkur undir tvítugu fengu armbönd. Og það var hugsað fyrir öllu. Því þegar á leið veisluna var komið með hvíta litla pappírspoka fyrir gesti til að taka með heim: Bækling með dagskrá brúðarathafnarinnar, blævænginn, málaða nafnasteininn, grappakrúsina eða aðrar gjafir. Hér má sjá þegar brúðurinn kemur með föður sínum í athöfnina og þegar Riccardo þakkar tengdaföður sínum samþykki hans fyrir giftingunni. Mánuðum áður hafði Riccardo formlega beðið Calcedonio Gonzales um hönd dóttur hans.Vísir/Daniele Sicilia Athöfnin hefst Athöfnin var haldin síðdegis í garðinum. Sem nú skartaði sínu fegursta. Gestir streymdu að um fimmleytið og óhætt að segja að blævængirnir hafi komið sér vel því úti var um 30 stiga hiti. Ólíkt því sem þekkist hér heima, þurfti brúðguminn ekki að standa eins og steinrunninn þar sem athöfnin fór fram heldur gekk hann á milli gesta og spjallaði. Þegar stóra stundin nálgaðist kom hann sér fyrir við ólífutréð, sem nú stóð eins og stórt og fallegt tré í hlutverki altaris. Kristín Gaia, yngsta systir Valentinu, spilaði og söng fallega tónlist fyrir gesti. Spennan jókst. Sviti rann niður enni. Og loks gerðist það sem allir biðu eftir: Brúðurinn var komin. Gæsahúðin gerði vart við sig þrátt fyrir hitann. Tár spruttu fram. Gestir tóku andköf og brúðguminn stóð sem stjarfur. Þetta var mómentið þar sem konur verða þær fallegustu í heimi; hvítklædd brúður gengur til brúðgumans síns. Í tilfelli Valentinu leiddi móðir hennar brúðurina fyrsta spölinn en síðan tók faðir hennar við. Sjónin sem aldrei gleymist. Augnablikið þar sem brúðhjónin mætast fyrir guði og mönnum. Eitt eftirminnilegasta atriðið í athöfninni var þegar presturinn, eiginkona hans og dóttir fluttu afar fallegt afrískt lag sem er óður til brúðhjóna. Á Ítalíu eru athafnirnar ólíkar því sem við þekkjum að því leytinu til að meiri þátttaka er frá gestum og öðrum í athöfninni og/eða táknrænar athafnir brúðhjónanna sjálfra, svo sem að lesa loforðið upp fyrir hvort annað eða kveikja á kerti. Brúðarbíll hjónanna var í takt við umhverfið: Sexhjólabíll.Vísir/Daniele Sicilia Giftingin sjálf Presturinn sem gaf hjónin saman er frændi Riccardo en það sem einkenndi athöfnina var þátttaka gesta en ekki tónlistaratriði eins og meira er lagt upp úr í íslenskum athöfnum. Til viðbótar við ræðu prestsins má til dæmis nefna að mæður brúðhjónanna lásu valda kafla úr biblíunni. Valentina og Riccardo segja þennan sið algengan og þá oftast þannig að einhver úr nánum vinahópi eða fjölskyldu les, fer með ljóð eða ræðu. Svaramennirnir voru nánustu vinir brúðhjónanna en voru ekki sýnilegir eins og hér er, fyrr en að þeim kom í sjálfri athöfninni. Þar sem þeir staðfestu fyrirhugaða giftingu með samþykki sínu. Þá var það afar falleg stund þegar brúðhjónin töluðu til hvors annars og kveiktu á olíukerti. Valentina og Riccardo segja þessa venju vera kallaða ,,loforð“ brúðhjónanna til hvors annars. „Við völdum að kveikja á kertum en fólk velur oft alls kyns aðra leið sem táknræna fyrir loforðið þar sem ástin er innsigluð. Til dæmis með vatni, sandi eða steini sem þú gefur tilvonandi maka þínum með loforðinu,“ útskýrir Valentina. Ástin innsigluð með kossi. Brúðarkjóll Valentinu var sérsaumaður af hönnuðinum Larimeloom og var kjóllinn hannaður þannig að ytra pils var hægt að hneppa frá kjólnum sem gerði hann léttari og styttri fyrir veisluhöld kvöldsins. Á þessari mynd má líka sjá ólívutréð, sem var skýringin á því að athöfnin var staðsett í garðinum þar sem hún var haldin, en ólívutré eru ótrúlega þrautseig og standa fyrir margt gott sem yfirfæra má yfir á góð hjónabönd.Vísir/Daniele Sicilia. Matarveisla í marga klukkutíma Allir sem þekkja til Ítalíu vita að á fáum stöðum annars staðar í heiminum er lagt jafn mikið upp úr mat og drykk. Vínið í veislunni var sérvalið af föður Riccardo, enda er hann víngerðarmaður í Trentino. Almennt drekka Ítalir hvítvín á sumrin en rauðvín á veturna en í þessu brúðkaupi var boðið upp á freyðivín í fordrykk eftir athöfnina og við komuna í veisluna og síðan rautt eða hvítt með matnum. Þá var barinn opinn fyrir aðra drykki fram yfir miðnætti. Engum á eyjunni duldist þennan dag að brúðkaupið væri stærsti viðburður dagsins. Meira að segja Pippo leigubílstjóri var búinn að kalla út aukamenn. Þá var vitað að veitingastaðurinn Il Faraglione væri lokaður fyrir einkahóf. Nú fallega skreyttur og undirbúinn, en með staðhaldara hafði matseðill hjónanna verið í mótun í nokkrar vikur. Ólíkt því sem hér þekkist, var eitt kvöld tekið á staðnum þar sem verðandi brúðhjón og fjölskylda borðuðu ýmsa rétti til að ákveða endanlegan matseðil. Þar sem allt gekk út á ferska sjávarrétti eins og Ustica er svo þekkt fyrir. Veitingastaðurinn Il Faraglione er staðsettur við höfnina á Ustica. Á afar fallegum stað og þaklaus, enda heitt í veðri alla þá mánuði sem staðurinn er opinn. Á meðan brúðhjónin voru í myndatöku var gestum aftur boðið upp á fordrykk á veitingastaðnum og nokkra smárétti. Sem þýðir að áður en kom að sjálfri matarveislunni, voru gestir tvívegis búnir að gæða sér á ýmsum smáréttum. Matseðillinn var margrétta að ítölskum sið. Fyrsti forréttur voru þrír sjávaréttir frá Ustica Annar foréttur voru þrír sérréttir kenndir við Ustica og Sikiley Pastarétturinn, eða Primo, var sikileyskur pastaréttur Aðalrétturinn var nýveiddur sverðfiskréttur frá Ustica Loks var það brúðartertan og sætindahlaðborð í desert. Veitingastaðurinn Il Faraglione er staðsettur við höfnina á Ustica. Með staðhöldurum hafði matseðillinn verið í undirbúningi í nokkrar vikur en hann var fimmrétta til viðbótar við þá smárétti sem gestum var boðið upp á fyrst eftir athöfn og aftur við komu á veitingastaðinn. Á Ustica eru helstu réttir ferskmeti úr sjónum, sem matseðillinn endurspeglaði. Til viðbótar við hefðbundinn matseðil var vegan matseðill. Vísir/Daniele Sicilia Veislustjórar voru bestu vinir brúðhjónanna en ólíkt íslenskum brúðkaupum er minna lagt upp úr ræðuhöldum í veislunni, aðeins örfáar ræður haldnar. Þá var ekki háborð eins og við þekkjum það, heldur sátu brúðhjónin með nánustu vinum sínum en foreldrar voru á öðrum borðum með gestum. Annað sem var áhugavert að sjá var að brúðartertan, sem var hin fegursta og á mörgum hæðum, var fyrst skorin af brúðhjónum eins og við þekkjum héðan. Síðan var tertan tekin í burtu og niðursneidd í fínar sneiðar sem síðan voru bornar til gesta. Fljótlega eftir að desertinn var framreiddur, fór fjör að færast í leika enda ekki laust við að margir væru orðnir nokkuð ligeglad eins og sagt er, eftir margra klukkustunda veisluhöld. Ekki spillti fyrir tónlist Charlie Mauthe plötusnúðs, sem segja má að sé hinn sikileyski Daddi diskó. Í ítölskum brúðkaupum er ekki miðað við að brúðhjónin yfirgefi svæðið fyrr en aðrir. Þvert á móti stefndi í fjöruga nótt hjá þeim og frekar að eldri gestir færu að týnast heim þegar á leið nóttina. Unga fólkið djammaði fram undir morgun. Fyrst á veitingastaðnum en síðan annars staðar þegar á leið. „Við komum heim um sexleytið í morgun,“ sögðu brúðhjónin daginn eftir. Þegar leið á kvöldið fór fjör að færast í leikinn en á Ítalíu er ekki beðið eftir því að brúðhjónin yfirgefi samkvæmið fyrst, heldur skemmti unga fólkið sér vel fram undir morgun á meðan eldri gestir fóru heim. Svo skemmtilega vildi til að besta vinkona og svaramaður Valentinu greip brúðarvöndinn en sjálf voru brúðhjónin á djamminu með vinum til klukkan sex um morguninn. Á einni mynd má sjá Valentinu með föður sínum, Calcedonio Gonzales lækni og eiginkonu hans Grétu Björk Valdimarsdóttur.Vísir/Daniele Sicilia Síðasti kaflinn: Það sem enn er ósagt Eins og flest brúðhjón þekkja, stóð undirbúningurinn yfir í marga mánuði og að mörgu að huga. Stórt atriði er auðvitað sjálfur brúðarkjóllinn en hann var hannaður þannig að eftir athöfnina var ytra pils hneppt af honum sem gerði kjólinn einfaldari og styttri fyrir veisluhöld og dans. Kvöldinu áður var brúðkaupsgestum líka boðið í kokkteil og smárétti á afar fallegum stað á Ustica sem kallast Vitinn. Þar er sólarlagið hvað fallegast. Á þessu kvöldi klæddist Valentina afar fallegum ljósum hörkjól. Og Valentina er mjög séð. Í marga mánuði hafði hún til dæmis fylgst vel með Robertu Patané brúðkaupsviðburðarhaldara á Youtube. Vinkona brúðhjónanna hannaði lógóið og alla grafík fyrir vefsíðu, boðskort og fleira. Allt skraut höfðu brúðhjónin keypt snemma í smávöruverslun í Etsy. Á brúðkaupsnóttinni gistu brúðhjónin í litlu friðuðu sumarhúsi í eigu föður Valentinu og Grétu, en frá þessu húsi er eitt fegursta útsýni eyjunnar. Þá var ekki gjafalisti eða óskalisti fyrir gjafir eins og við þekkjum á Íslandi, heldur spurðist út að ungu hjónin kysu helst pening til að nýta í vikulanga brúðkaupsferð til Írlands sem þau fóru í nokkrum dögum síðar. Fataverslunin á staðnum, La Gorgonia, hélt líka utan um sitt. Því til að koma í veg fyrir að konur íklæddust sömu kjólum eða fatnaði í veislunni, var allt skráð niður; hvaða kona keypti hvaða flík. Gestir sem komu langt að voru hýstir á helstu hótel- og gististöðum eyjunnar. Í boði Calcedonio Conzales læknis og Grétu. Þar sem Ustica telst eftirsótt eyja að heimsækja, var þessi gisting boðin gestum í þrjár nætur og fjóra daga. Þegar rýnt er í undirbúning brúðkaupsins, má finna alls kyns skjöl og yfirlit sem Valentina hélt utan um. Hverjir ættu að sitja hvar í veislunni. Hvar öll smáatriði væru keypt eða þyrfti að undirbúa. Hvernig skreytingar ættu að vera í athöfn eða veislu. Blómaskreytingarnar komu til dæmis frá Palermo á Sikiley. Fyrst voru þær nýttar í athöfninni og fordrykk en síðan ferjaðar á veitingastaðinn. Á heitum stöðum deyja fallegar blómaskreytingar nefnilega fljótt. Myndirnar sem ljósmyndarinn Daniele Sicilia tók af þeim hjónum eru margar hverjar eins og á fallegum póstkortum. Enda sólarlagið einstakt á Ustica. Ungu hjónin segja nú, þremur mánuðum eftir brúðkaup, að giftingin hafi gert þau nánari. Nokkrum dögum eftir brúðkaup fóru þau í viku brúðkaupsferðalag til Írlands.Vísir/Daniele Sicilia En nú þegar rétt rúmir þrír mánuðir eru liðnir frá brúðkaupinu: Hvernig finnst ykkur það nú vera að vera orðin hjón? Okkur finnst við nánari, þó að ekkert annað sé breytt. Því við búum enn á sama stað og erum enn í sömu vinnu og áður. Að vera með giftingahring og tala um eiginmann minn eða eiginkonu mína er samt svo notalegt og góð tilfinning. “ Enda allt lífið framundan. Brúðkaup Ítalía Mest lesið Mótmæltu keppninni í fyrra en ætla sér alla leið í ár Lífið Þetta eru keppendur Söngvakeppninnar 2025 Lífið Ragna Sigurðardóttir á von á barni Lífið Ryan Reynolds og Taylor Swift hafi beitt hann þrýstingi Lífið Illa bruggaðar Guðaveigar Gagnrýni Erling og Sigríður selja húsið eftir átján ár Lífið Troðfullt hús og standandi lófaklapp Menning Kvikmyndirnar sem beðið er eftir 2025 Bíó og sjónvarp Taldi læknana vera að grínast þegar hann vaknaði úr dái Lífið Flugfélag bregst við vegna kómískrar frásagnar Katrínar Lífið Fleiri fréttir Mótmæltu keppninni í fyrra en ætla sér alla leið í ár Ragna Sigurðardóttir á von á barni Þetta eru keppendur Söngvakeppninnar 2025 Erling og Sigríður selja húsið eftir átján ár Ryan Reynolds og Taylor Swift hafi beitt hann þrýstingi Gucci og glæsileiki á Ítalíu hjá Línu og Gumma Taldi læknana vera að grínast þegar hann vaknaði úr dái Sjá loksins fyrir endann á erfiðustu framkvæmdum á ferlinum Joan Plowright er látin Dóttir Ernu Mistar og Þorleifs Arnar fædd Minntust þess að 30 ár eru liðin frá því að flóðið féll Adam Sandler á sýningu Maríu Birtu í Las Vegas Nicola Sturgeon orðin einhleyp Mætti með fertugan Paddington á forsýninguna David Lynch er látinn Flugfélag bregst við vegna kómískrar frásagnar Katrínar Skælbrosandi Sofia snæddi með Lewis Erótískt hommablað vill mynda akureyrska fola Bobbysocks og Wig Wam vilja aftur í Eurovision Sagði engum frá nema fjölskyldunni Fallegt heimili Völu á Álftanesinu Starfsdagar nauðsynlegir, meira ofbeldi og ljótara orðbragð „Þetta er svo ósanngjarnt og enn mjög óraunverulegt fyrir okkur fjölskylduna“ Nóg pláss fyrir tvo í sturtunni Kynferðisleg stífla hjá húsfélaginu Rakel María hætt komin: „Þið verðið drepin ef þið farið þarna upp“ Linda Nolan látin Gert að halda öllum gögnum um „Nicepool“ „Í rauninni fyrsti íslenski samfélagsmiðillinn“ Snýst ekki bara um að vera með flottan rass Sjá meira
Kveikir síðan á kerti og leggur í litla skál með olíu. Brúðurin, Valentina Gonzales er án efa langfallegasta konan á svæðinu, tekur míkrafóninn og endurtekur orð síns heittelskaða: „Ég lofa að vera þér alltaf trú, í gleði og sársauka, í heilsu og veikindum…..“ Mínútum síðar eru Valentina og Riccardo orðin hjón. Við erum stödd í brúðkaupi á Ítalíu. Ekki íslensku brúðkaupi á Ítalíu eins og verið hefur svo vinsælt síðustu misserin, heldur ítölsku brúðkaupi á Ítalíu. Án efa því fallegasta sem blaðamaður hefur nokkru sinni upplifað. Brúðkaupið er ekki hefðbundið ítalskt brúðkaup að því leytinu til að það fór ekki fram í kaþólskri kirkju né samkvæmt kirkjuathöfnum kaþólskrar trúar. Því brúðurin er kaþólsk en brúðguminn babtistatrúar. Kristin trú hvoru tveggja en ekki sömu siðir. Í dag fáum við að upplifa ítalskt brúðkaup eins og þau gerast fallegust. Brúðkaupið var haldið á fallegri eyju, Ustica sem er rétt fyrir utan Sikiley. Um þrjátíu stiga hiti var þennan föstudag en á Ítalíu eru brúðkaup haldin alla vikudaga, ekki aðeins á laugardögum. Margt er líkt með venjum, en margt ólíkt. Til dæmis fyrirkomulagið í kringum gjafir, hönnun á lógói fyrir brúðkaup og margt fleira sem við þekkjum ekki.Vísir/Daniela Sicilia Svo margt öðruvísi en á Íslandi Brúðkaup Valentinu og Riccardo verður lengi í minnum haft hjá þeim 120 gestum sem í það var boðið. Enda vægast sagt glæsilegt þar sem öllu var tjaldað til og það á afar fallegum stað; eyjunni Ustica. Margt er líkt með ítölskum brúðkaupum eins og þeim íslensku eða hjá öðrum þjóðum. Eins og til dæmis það að brúðurin sé hvítklædd eða að eftir dýrindis matarveislu sé brúðkaupsterta og dans. En margt er öðruvísi í siðum og venjum. Til dæmis giftir fólk sig á Ítalíu á öllum dögum. Brúðkaup Valentinu og Riccardo var haldið föstudaginn 2.september síðastliðinn. Að gifta sig á mánudegi, þriðjudegi og svo framvegis er aðeins háð vali fólks, en ekki aðeins bundið við laugardaga eins og flest brúðkaup eru hér. Þá er gjafafyrirkomulagið öðruvísi. Því gjafir eru gefnar fyrir brúðkaup. Þetta þýðir að ef þú til dæmis gefur brúðhjónum kaffistell eða málverk gætir þú hitt verðandi brúðhjón fyrir giftingu og ýmist drukkið kaffi úr nýja stellinu eða horft á myndina þegar hengda upp á vegg. Eitt af því sem nokkuð er nokkuð algengt á Ítalíu er að fyrir hvert brúðkaup er hannað lógó. Og ákveðið þema. Í brúðkaupi Valentinu og Riccardo var ólívutré undirstaðan í öllu þema; til dæmis litavali, hönnun lógós og fleira. Fyrir brúðkaup fengu veislugestir boðskort þar sem sjá mátti hið sérhannaða lógó. Í umslaginu með boðskortinu var líka lítið brúnt umslag. Í þessu umslagi var texti um ólívutréð og hvað það er sagt tákna. Því ólívutré er ótrúlega þrautseig planta, sem getur staðið af sér verstu veður og hamfarir, jafnvel eldsvoða. Þessi þrautseigja ólívutrésins er því sögð standa fyrir stöðugleika, velmegun og eilífðina. Allt orðað á svo fallegan hátt að vel var hægt að yfirfæra textann yfir á þá eiginleika sem einkenna góð hjónabönd. Í umslaginu var einnig lítið fræ til að gróðursetja ólívutré. Þá var þar nafnspjald með upplýsingum um vefsíðu brúðkaupsins. Því á Ítalíu að hönnuð sé einföld vefsíða fyrir brúðkaupið. En áður en við höldum áfram að heyra um brúðkaupið, er ekki úr vegi að kynnast aðeins betur brúðhjónunum sjálfum. Þegar styttist í stóru stundina: Besta vinkonan og svaramaður Valentinu, Giulia La Paglia, aðstoðar brúðurina á meðan brúðguminn bíður en svo skemmtilega vildi til að Giulia greip brúðarvöndin síðar um kvöldið. Neðri myndir: Mæður með börnum sínum, síðustu mínúturnar fyrir giftingu. Í athöfninni lásu mæðurnar upp úr biblíunni en algengur brúðarsiður er að vinir eða vandamenn lesi, flytji ljóð eða ræðu. Vísir/Daniele Sicilia Bónorð í kjölfar Covid Svo skemmtilega vill til að hjónin eru fædd sama dag: 25.apríl. Nema að Valentina er fædd árið 1989 en Riccardo árið 1987. Valentina fæddist á Sikiley en ólst upp í Trento, höfuðborg Trentino héraðs á Norður Ítalíu. Riccardo er fæddur og uppalinn í Rovereto í Trentino. Parið kynntist á ráðstefnu árið 2018, þar sem Valentina, sem starfar sem félagsfræðingur hjá Trento borg, var að vinna en Riccardo, sem starfar sem valdeflandi ungmennafulltrúi, hélt erindi. Með þeim tóku ástir og segir parið að það um tveimur mánuðum síðar, eftir tíð samskipti og stefnumót, hafi þau verið orðin formlegt kærustupar. Valentina viðurkennir samt að hún hafi snemma séð fyrir sér að Riccardo væri hinn eini sanni og svo má líka segja um hann. Þegar hörðustu Covid reglur voru settar á Ítalíu vildi svo til að Riccardo var staddur heima hjá Valentinu. Og varð fyrir vikið innlyksa þar. Því má segja að formleg sambúð ungu hjónanna hafi í raun hafist vegna Covid. Í febrúar á þessu ári voru Valentina og Riccardo í heimsókn hjá vinafólki upp til fjalla í Trentino. Þar sem þau sátu á bar kom upp óvænt en afar rómantísk stund. Því þegar lagið On Every Street með Dire Straits var spilað segir Valentina við Riccardo: „Ef við giftumst einhvern tíma væri ég til í að þetta lag yrði spilað í brúðkaupinu okkar…“ Og Riccardo svarar: En hvers vegna að bíða? Hvers vegna giftum við okkur ekki núna?“ Þar með var boltanum kastað. Um kvöldið sögðu þau nánustu vinum frá áformunum og næstu daga fjölskyldu sinni. „Við hugsuðum bara með okkur. Ef við lifðum það af að vera innilokuð í Covid mánuðum saman í pínkulitlu rými, værum við tilbúin í hjónaband,“ segir Valentina og hlær. Hér má sjáhönnunina miðað við ólívuþema brúðkaupsins en það var Chiara Dapor, vinkona brúðgumans sem sá um alla hönnun; lógó, boðskort, vefsíðu og fleira. Þá fengu brúðargestir ýmsar gjafir sem voru merktar upphafsstöfum brúðhjónanna. Blævæng í athöfninni fyrir konur, grappakrús eftir listamanninn Nino Parucca og möndlugjöf í poka, en möndlugjöf er alltaf gefin í stærri athöfnum, svo sem skírnum, fermingum og brúðkaupum.Vísir/Daniele Sicilia Undirbúningurinn Móðir og móðurfjölskylda Valentinu býr í Trento en fjölskylda Riccardo í Rovereto. En frá því að Valentina var lítil hefur hún dvalið í lengri og skemmri tíma á sumrin á Ustica í sumarhúsi föður síns og seinni konunni hans, Calcedonio Gonzales lækni og Grétu Björk Valdimarsdóttur. Snemma barst í tal að halda brúðkaupið á Ustica. Enda eyjan rómuð fyrir fegurð og fallegt sólarlag. Þetta þýddi þó að langflestir gestir kæmu langt að. Ýmist frá Norður Ítalíu eða þaðan af lengra. Sumir gesta þó staddir á Ustica eða í Palermo á Sikiley. Strax var hafist handa við undirbúning: Athöfnin sjálf skyldi haldin í garðinum hjá föður Valentinu: Því þar stendur eitt ólívutré. Á stóru bílaplani yrði boðið upp á fordrykk og litla smárétti. Á stærsta veitingastað eyjunnar, Il Faraglione eða Lóndröngum eins og nafnið þýðir, skyldi veislan haldin. Nú þurfti að hafa hraðar hendur: Að hanna lógó, prenta boðskort, búa til vefsíðu. Undirbúa garðinn þar sem athöfnin ætti að vera. Og hvernig það væri framkvæmanlegt að sæta allan þennan fjölda hjá ólívutrénu. Að ákveða vín og matseðil. Eitt sem einkennir ítalskar veislur er möndlugjöf fyrir gesti, en möndlugjöf er gefin í skírnarveislum, fermingarveislum og í brúðkaupum. Mandlan er í raun lítið súkkulaðimöndlunammi, svona eins og hálfgerður konfekt moli nema moli sem bráðnar ekki. Sykurhúðað súkkulaði með möndlu inn í. Fimm möndlumolum er pakkað í lítinn poka og er mikið lagt upp úr að möndlugjöfin sé sem fallegust. Jafn mikið föndur og hún er. Þá er Valentina sjálf mjög listræn og það mátti sjá á mörgu sem einkenndi allt tengt brúðkaupinu. Til dæmis málaði Valentína fallega á litla steina nöfn allra gesta og þannig voru borðin sætamerkt. Steinarnir voru týndir í fjörum Ustica. Borðin voru líka kennd við heiti þekktra kennileita á Ustica, svo sem hella, strandstaða og fleira. Að vera með borðaþema sem nöfn er algengur ítalskur siður. Gestir fengu líka alls kyns gjafir. Á stólum gesta í garðinum voru sérhannaðir blævængir á öðrum hvorum stól: Fyrir konur. Enda heitt í veðri á þessum árstíma. Blævængirnir voru merktir upphafstöfum brúðhjónanna. Á veisluborðum voru sérhannað litlar grappakrúsir eftir einn þekktasta keramiklistamann Sikileyjar, Nino Parrucca. Grappakrúsirnar eru merktar upphafsstöfum brúðhjónanna. Ungar konur og stúlkur undir tvítugu fengu armbönd. Og það var hugsað fyrir öllu. Því þegar á leið veisluna var komið með hvíta litla pappírspoka fyrir gesti til að taka með heim: Bækling með dagskrá brúðarathafnarinnar, blævænginn, málaða nafnasteininn, grappakrúsina eða aðrar gjafir. Hér má sjá þegar brúðurinn kemur með föður sínum í athöfnina og þegar Riccardo þakkar tengdaföður sínum samþykki hans fyrir giftingunni. Mánuðum áður hafði Riccardo formlega beðið Calcedonio Gonzales um hönd dóttur hans.Vísir/Daniele Sicilia Athöfnin hefst Athöfnin var haldin síðdegis í garðinum. Sem nú skartaði sínu fegursta. Gestir streymdu að um fimmleytið og óhætt að segja að blævængirnir hafi komið sér vel því úti var um 30 stiga hiti. Ólíkt því sem þekkist hér heima, þurfti brúðguminn ekki að standa eins og steinrunninn þar sem athöfnin fór fram heldur gekk hann á milli gesta og spjallaði. Þegar stóra stundin nálgaðist kom hann sér fyrir við ólífutréð, sem nú stóð eins og stórt og fallegt tré í hlutverki altaris. Kristín Gaia, yngsta systir Valentinu, spilaði og söng fallega tónlist fyrir gesti. Spennan jókst. Sviti rann niður enni. Og loks gerðist það sem allir biðu eftir: Brúðurinn var komin. Gæsahúðin gerði vart við sig þrátt fyrir hitann. Tár spruttu fram. Gestir tóku andköf og brúðguminn stóð sem stjarfur. Þetta var mómentið þar sem konur verða þær fallegustu í heimi; hvítklædd brúður gengur til brúðgumans síns. Í tilfelli Valentinu leiddi móðir hennar brúðurina fyrsta spölinn en síðan tók faðir hennar við. Sjónin sem aldrei gleymist. Augnablikið þar sem brúðhjónin mætast fyrir guði og mönnum. Eitt eftirminnilegasta atriðið í athöfninni var þegar presturinn, eiginkona hans og dóttir fluttu afar fallegt afrískt lag sem er óður til brúðhjóna. Á Ítalíu eru athafnirnar ólíkar því sem við þekkjum að því leytinu til að meiri þátttaka er frá gestum og öðrum í athöfninni og/eða táknrænar athafnir brúðhjónanna sjálfra, svo sem að lesa loforðið upp fyrir hvort annað eða kveikja á kerti. Brúðarbíll hjónanna var í takt við umhverfið: Sexhjólabíll.Vísir/Daniele Sicilia Giftingin sjálf Presturinn sem gaf hjónin saman er frændi Riccardo en það sem einkenndi athöfnina var þátttaka gesta en ekki tónlistaratriði eins og meira er lagt upp úr í íslenskum athöfnum. Til viðbótar við ræðu prestsins má til dæmis nefna að mæður brúðhjónanna lásu valda kafla úr biblíunni. Valentina og Riccardo segja þennan sið algengan og þá oftast þannig að einhver úr nánum vinahópi eða fjölskyldu les, fer með ljóð eða ræðu. Svaramennirnir voru nánustu vinir brúðhjónanna en voru ekki sýnilegir eins og hér er, fyrr en að þeim kom í sjálfri athöfninni. Þar sem þeir staðfestu fyrirhugaða giftingu með samþykki sínu. Þá var það afar falleg stund þegar brúðhjónin töluðu til hvors annars og kveiktu á olíukerti. Valentina og Riccardo segja þessa venju vera kallaða ,,loforð“ brúðhjónanna til hvors annars. „Við völdum að kveikja á kertum en fólk velur oft alls kyns aðra leið sem táknræna fyrir loforðið þar sem ástin er innsigluð. Til dæmis með vatni, sandi eða steini sem þú gefur tilvonandi maka þínum með loforðinu,“ útskýrir Valentina. Ástin innsigluð með kossi. Brúðarkjóll Valentinu var sérsaumaður af hönnuðinum Larimeloom og var kjóllinn hannaður þannig að ytra pils var hægt að hneppa frá kjólnum sem gerði hann léttari og styttri fyrir veisluhöld kvöldsins. Á þessari mynd má líka sjá ólívutréð, sem var skýringin á því að athöfnin var staðsett í garðinum þar sem hún var haldin, en ólívutré eru ótrúlega þrautseig og standa fyrir margt gott sem yfirfæra má yfir á góð hjónabönd.Vísir/Daniele Sicilia. Matarveisla í marga klukkutíma Allir sem þekkja til Ítalíu vita að á fáum stöðum annars staðar í heiminum er lagt jafn mikið upp úr mat og drykk. Vínið í veislunni var sérvalið af föður Riccardo, enda er hann víngerðarmaður í Trentino. Almennt drekka Ítalir hvítvín á sumrin en rauðvín á veturna en í þessu brúðkaupi var boðið upp á freyðivín í fordrykk eftir athöfnina og við komuna í veisluna og síðan rautt eða hvítt með matnum. Þá var barinn opinn fyrir aðra drykki fram yfir miðnætti. Engum á eyjunni duldist þennan dag að brúðkaupið væri stærsti viðburður dagsins. Meira að segja Pippo leigubílstjóri var búinn að kalla út aukamenn. Þá var vitað að veitingastaðurinn Il Faraglione væri lokaður fyrir einkahóf. Nú fallega skreyttur og undirbúinn, en með staðhaldara hafði matseðill hjónanna verið í mótun í nokkrar vikur. Ólíkt því sem hér þekkist, var eitt kvöld tekið á staðnum þar sem verðandi brúðhjón og fjölskylda borðuðu ýmsa rétti til að ákveða endanlegan matseðil. Þar sem allt gekk út á ferska sjávarrétti eins og Ustica er svo þekkt fyrir. Veitingastaðurinn Il Faraglione er staðsettur við höfnina á Ustica. Á afar fallegum stað og þaklaus, enda heitt í veðri alla þá mánuði sem staðurinn er opinn. Á meðan brúðhjónin voru í myndatöku var gestum aftur boðið upp á fordrykk á veitingastaðnum og nokkra smárétti. Sem þýðir að áður en kom að sjálfri matarveislunni, voru gestir tvívegis búnir að gæða sér á ýmsum smáréttum. Matseðillinn var margrétta að ítölskum sið. Fyrsti forréttur voru þrír sjávaréttir frá Ustica Annar foréttur voru þrír sérréttir kenndir við Ustica og Sikiley Pastarétturinn, eða Primo, var sikileyskur pastaréttur Aðalrétturinn var nýveiddur sverðfiskréttur frá Ustica Loks var það brúðartertan og sætindahlaðborð í desert. Veitingastaðurinn Il Faraglione er staðsettur við höfnina á Ustica. Með staðhöldurum hafði matseðillinn verið í undirbúningi í nokkrar vikur en hann var fimmrétta til viðbótar við þá smárétti sem gestum var boðið upp á fyrst eftir athöfn og aftur við komu á veitingastaðinn. Á Ustica eru helstu réttir ferskmeti úr sjónum, sem matseðillinn endurspeglaði. Til viðbótar við hefðbundinn matseðil var vegan matseðill. Vísir/Daniele Sicilia Veislustjórar voru bestu vinir brúðhjónanna en ólíkt íslenskum brúðkaupum er minna lagt upp úr ræðuhöldum í veislunni, aðeins örfáar ræður haldnar. Þá var ekki háborð eins og við þekkjum það, heldur sátu brúðhjónin með nánustu vinum sínum en foreldrar voru á öðrum borðum með gestum. Annað sem var áhugavert að sjá var að brúðartertan, sem var hin fegursta og á mörgum hæðum, var fyrst skorin af brúðhjónum eins og við þekkjum héðan. Síðan var tertan tekin í burtu og niðursneidd í fínar sneiðar sem síðan voru bornar til gesta. Fljótlega eftir að desertinn var framreiddur, fór fjör að færast í leika enda ekki laust við að margir væru orðnir nokkuð ligeglad eins og sagt er, eftir margra klukkustunda veisluhöld. Ekki spillti fyrir tónlist Charlie Mauthe plötusnúðs, sem segja má að sé hinn sikileyski Daddi diskó. Í ítölskum brúðkaupum er ekki miðað við að brúðhjónin yfirgefi svæðið fyrr en aðrir. Þvert á móti stefndi í fjöruga nótt hjá þeim og frekar að eldri gestir færu að týnast heim þegar á leið nóttina. Unga fólkið djammaði fram undir morgun. Fyrst á veitingastaðnum en síðan annars staðar þegar á leið. „Við komum heim um sexleytið í morgun,“ sögðu brúðhjónin daginn eftir. Þegar leið á kvöldið fór fjör að færast í leikinn en á Ítalíu er ekki beðið eftir því að brúðhjónin yfirgefi samkvæmið fyrst, heldur skemmti unga fólkið sér vel fram undir morgun á meðan eldri gestir fóru heim. Svo skemmtilega vildi til að besta vinkona og svaramaður Valentinu greip brúðarvöndinn en sjálf voru brúðhjónin á djamminu með vinum til klukkan sex um morguninn. Á einni mynd má sjá Valentinu með föður sínum, Calcedonio Gonzales lækni og eiginkonu hans Grétu Björk Valdimarsdóttur.Vísir/Daniele Sicilia Síðasti kaflinn: Það sem enn er ósagt Eins og flest brúðhjón þekkja, stóð undirbúningurinn yfir í marga mánuði og að mörgu að huga. Stórt atriði er auðvitað sjálfur brúðarkjóllinn en hann var hannaður þannig að eftir athöfnina var ytra pils hneppt af honum sem gerði kjólinn einfaldari og styttri fyrir veisluhöld og dans. Kvöldinu áður var brúðkaupsgestum líka boðið í kokkteil og smárétti á afar fallegum stað á Ustica sem kallast Vitinn. Þar er sólarlagið hvað fallegast. Á þessu kvöldi klæddist Valentina afar fallegum ljósum hörkjól. Og Valentina er mjög séð. Í marga mánuði hafði hún til dæmis fylgst vel með Robertu Patané brúðkaupsviðburðarhaldara á Youtube. Vinkona brúðhjónanna hannaði lógóið og alla grafík fyrir vefsíðu, boðskort og fleira. Allt skraut höfðu brúðhjónin keypt snemma í smávöruverslun í Etsy. Á brúðkaupsnóttinni gistu brúðhjónin í litlu friðuðu sumarhúsi í eigu föður Valentinu og Grétu, en frá þessu húsi er eitt fegursta útsýni eyjunnar. Þá var ekki gjafalisti eða óskalisti fyrir gjafir eins og við þekkjum á Íslandi, heldur spurðist út að ungu hjónin kysu helst pening til að nýta í vikulanga brúðkaupsferð til Írlands sem þau fóru í nokkrum dögum síðar. Fataverslunin á staðnum, La Gorgonia, hélt líka utan um sitt. Því til að koma í veg fyrir að konur íklæddust sömu kjólum eða fatnaði í veislunni, var allt skráð niður; hvaða kona keypti hvaða flík. Gestir sem komu langt að voru hýstir á helstu hótel- og gististöðum eyjunnar. Í boði Calcedonio Conzales læknis og Grétu. Þar sem Ustica telst eftirsótt eyja að heimsækja, var þessi gisting boðin gestum í þrjár nætur og fjóra daga. Þegar rýnt er í undirbúning brúðkaupsins, má finna alls kyns skjöl og yfirlit sem Valentina hélt utan um. Hverjir ættu að sitja hvar í veislunni. Hvar öll smáatriði væru keypt eða þyrfti að undirbúa. Hvernig skreytingar ættu að vera í athöfn eða veislu. Blómaskreytingarnar komu til dæmis frá Palermo á Sikiley. Fyrst voru þær nýttar í athöfninni og fordrykk en síðan ferjaðar á veitingastaðinn. Á heitum stöðum deyja fallegar blómaskreytingar nefnilega fljótt. Myndirnar sem ljósmyndarinn Daniele Sicilia tók af þeim hjónum eru margar hverjar eins og á fallegum póstkortum. Enda sólarlagið einstakt á Ustica. Ungu hjónin segja nú, þremur mánuðum eftir brúðkaup, að giftingin hafi gert þau nánari. Nokkrum dögum eftir brúðkaup fóru þau í viku brúðkaupsferðalag til Írlands.Vísir/Daniele Sicilia En nú þegar rétt rúmir þrír mánuðir eru liðnir frá brúðkaupinu: Hvernig finnst ykkur það nú vera að vera orðin hjón? Okkur finnst við nánari, þó að ekkert annað sé breytt. Því við búum enn á sama stað og erum enn í sömu vinnu og áður. Að vera með giftingahring og tala um eiginmann minn eða eiginkonu mína er samt svo notalegt og góð tilfinning. “ Enda allt lífið framundan.
Brúðkaup Ítalía Mest lesið Mótmæltu keppninni í fyrra en ætla sér alla leið í ár Lífið Þetta eru keppendur Söngvakeppninnar 2025 Lífið Ragna Sigurðardóttir á von á barni Lífið Ryan Reynolds og Taylor Swift hafi beitt hann þrýstingi Lífið Illa bruggaðar Guðaveigar Gagnrýni Erling og Sigríður selja húsið eftir átján ár Lífið Troðfullt hús og standandi lófaklapp Menning Kvikmyndirnar sem beðið er eftir 2025 Bíó og sjónvarp Taldi læknana vera að grínast þegar hann vaknaði úr dái Lífið Flugfélag bregst við vegna kómískrar frásagnar Katrínar Lífið Fleiri fréttir Mótmæltu keppninni í fyrra en ætla sér alla leið í ár Ragna Sigurðardóttir á von á barni Þetta eru keppendur Söngvakeppninnar 2025 Erling og Sigríður selja húsið eftir átján ár Ryan Reynolds og Taylor Swift hafi beitt hann þrýstingi Gucci og glæsileiki á Ítalíu hjá Línu og Gumma Taldi læknana vera að grínast þegar hann vaknaði úr dái Sjá loksins fyrir endann á erfiðustu framkvæmdum á ferlinum Joan Plowright er látin Dóttir Ernu Mistar og Þorleifs Arnar fædd Minntust þess að 30 ár eru liðin frá því að flóðið féll Adam Sandler á sýningu Maríu Birtu í Las Vegas Nicola Sturgeon orðin einhleyp Mætti með fertugan Paddington á forsýninguna David Lynch er látinn Flugfélag bregst við vegna kómískrar frásagnar Katrínar Skælbrosandi Sofia snæddi með Lewis Erótískt hommablað vill mynda akureyrska fola Bobbysocks og Wig Wam vilja aftur í Eurovision Sagði engum frá nema fjölskyldunni Fallegt heimili Völu á Álftanesinu Starfsdagar nauðsynlegir, meira ofbeldi og ljótara orðbragð „Þetta er svo ósanngjarnt og enn mjög óraunverulegt fyrir okkur fjölskylduna“ Nóg pláss fyrir tvo í sturtunni Kynferðisleg stífla hjá húsfélaginu Rakel María hætt komin: „Þið verðið drepin ef þið farið þarna upp“ Linda Nolan látin Gert að halda öllum gögnum um „Nicepool“ „Í rauninni fyrsti íslenski samfélagsmiðillinn“ Snýst ekki bara um að vera með flottan rass Sjá meira