Fá ef nokkur dæmi eru um aðrar eins athygli og vinsældir og þær sem Verbúðin naut þegar þættirnir voru til sýninga í lok árs 2021 og í byrjun þessa árs. Félagar í Vesturporti hafa ekkert viljað tjá sig hingað til um það hvort til standi að gera framhald en Rakel Garðarsdóttir upplýsir að svo verði í viðtali sem birtist á Vísi í morgun. En í viðtalinu lýsir hún því hvernig lífið á Ítalíu er en þar býr hún nú ásamt eiginmanni sínum Birni Hlyni Haraldssyni.
„Mikið af vinnunni hans er í tölvu því nú er verið að skrifa handrit að næstu Verbúðarseríunni og hann er einn af þeim sem er að vinna í því. Fyrra handritið tók mörg ár í vinnslu. Þegar það koma upp verkefni þar sem hann þarf að fara og vera staðbundið til að leika, þá er það ekkert mál. Hann fer þá bara heim eða þangað sem verkefnið er,“ segir Rakel.
Gísli Örn Garðarson, bróðir Rakelar, einn handritshöfunda og leikstjóri sjónvarpsþáttanna sagði á sínum tíma að þættirnir væru óður til 9. áratugarins; fjalla um vini sem búa vestur á fjörðum og fara í sjávarútvegsbransann árið 1983 þegar kvótakerfið er að verða til.
„Við fylgjum því hvernig þau þróast samhliða því sem kvótkerfið er að festa sig í sessi á árunum 1983 til 1991. Það er tímaspan seríunnar,“ sagði Gísli Örn þá.
Eftir því sem Vísir kemst næst er handritsgerðin á frumstigi en hugmyndin er sú að tekin verði upp þráðurinn þar sem frá var horfið í dramatískum þætti fyrstu þáttaraðar. Undir eru ýmsir dramatískir sögulegir atburðir, og þá líklegt að litið verði til einkavæðingar bankanna og vendinga á pólitíska sviðinu. Auk þeirra Björns Hlyns og Gísla Arnar verða sem fyrr Nína Dögg Filippusdóttir í handritsteyminu auk Mikaels Torfasonar rithöfundar.