Innblásturinn er fastur liður hjá Lífinu á Vísi þar sem rætt er við ólíkt fólk um hvað veitir því innblástur í tilverunni og hvaða ráðum þau luma á varðandi andlega heilsu.

Hver ert þú í þínum eigin orðum?
Ég er kona sem elskar að lifa lífinu einn dag í einu og reyni að fá eins mikið og hægt er út úr öllum dögum. Ég hugsa ekki um fortíðina né framtíðina og ég trúi að það sé ástæða fyrir öllu í þessu lífi.
Hvað veitir þér innblástur?
Það sem veitir mér innblástur er margbreytileiki og fæ hann alls staðar á meðan ég er móttækileg.

Hvað er þitt besta ráð til að næra andlega heilsu?
Besta ráð fyrir andlega heilsu fyrir mig er að hreyfa mig og einnig að vinna með fagfólki úr erfiðleikum fortíðarinnar.
Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?
Hefðbundinn dagur er að fá mér kaffi, lesa nokkur jákvæð quotes inn í daginn, hreyfa mig eins mikið og dagurinn leyfir og setja vini mína í forgang.

Uppáhalds lag og af hverju?
Uppáhalds lag er Dream með Imagine Dragons. Það hefur tilfinningalegt gildi fyrir mig. Sama hversu geggjað lífið getur verið eru alltaf fullt af krefjandi verkefnum framundan sem maður þarf að takast á við.
Uppáhalds matur og af hverju?
Elska mömmu mat mest (Spíran) en svo er Jói Fel með bestu pastarétti sem hef nokkurn tímann smakkað. Svo er ég svolítið mikið fyrir mjólkursúkkulaði með hnetum.
Besta ráð sem þú hefur fengið?
Lífið er núna, ekki í gær eða á morgun.
Að taka allt sem hægt að taka og gefa eins mikið af sér og mögulegt er.

Hvað er það skemmtilegasta við lífið?
Skemmtilegasta við lífið er að það býður upp á endalaus ævintýri. Og þegar maður er búinn með eitt markmið tekur næsta við. Einu sinni gat hugsað mér að deyja ung.
Núna er ég bara allt of spennt að fá meira út úr lífinu alla daga og eyða því með fólkinu mínu. Því fólkið mitt er það dýrmætasta sem ég á í dag.