Á vef Veðurstofunnar segir að það verði súld eða dálítil rigning framan af degi á vesturhelmingi landsins, en lítil eða engin úrkoma seinnipartinn. Bjartviðri á austanverðu landinu.
„Suðlæg átt á morgun, víða á bilinu 5-10 m/s. Dálítil væta á köflum um landið sunnan- og vestanvert, en þurrt og bjart veður á Norður- og Austurlandi. Hiti 2 til 7 stig, en norðaustanlands frystir að næturlagi.
Það er rakt loft til staðar allvíða á landinu, lofthiti er ekki langt yfir frostmarki og vindur hægur. Við þessar aðstæður getur myndast lúmsk hálka ef nær að kólna nærri yfirborði. Rétt er að vera á varðbergi gagnvart hálkunni, en það á nú reyndar oftast við í skammdegismánuðunum á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Sunnan 5-10 m/s, skýjað og dálítil væta við suður- og vesturströndina, hiti 2 til 7 stig. Léttskýjað norðaustanlands og hiti kringum frostmark.
Á sunnudag: Austlæg átt 3-8, skýjað og sums staðar dálítil væta. Austan 10-15 og talsverð rigning á suðaustanerðu landinu síðdegis. Hiti 2 til 7 stig.
Á mánudag og þriðjudag: Austlæg eða breytileg átt og rigning með köflum í flestum landshlutum. Hiti breytist lítið.
Á miðvikudag og fimmtudag: Útlit fyrir norðaustanátt með rigningu eða slyddu af og til á Norður- og Austurlandi, en þurrt að mestu sunnan heiða. Kólnar heldur í veðri.