Fréttastofa spjallaði við Hjörvar stuttu eftir seinni leik hans við Wesley So í gær. Hjörvar gerði jafntefli við So í fyrri viðureign þeirra í gær og tapaði þeirri seinni. Hjörvar Steinn er stórmeistari en hann náði því markmiði aðeins tuttugu ára gamall, fyrir níu árum síðan.
Hjörvar var vongóður fyrir framhaldið en vitaskuld súr eftir nýskeð tap þegar fréttastofa ræddi við hann um gengni hans á mótinu.
„Var að enda við að tapa þannig þú ert ekki að hitta mig á besta augnabliki lífs míns en maður reynir að brosa bara í gegnum þetta. Það er önnur skákin eftir þannig ég get jafnað það einvígi ef ég vinn þá skák,“ sagði Hjörvar.
Þegar því er velt upp að Hjörvar eigi enn möguleika á að komast áfram svarar hann því játandi en segir stöðuna vera strembna þegar andstæðingar eru núverandi heimsmeistari í Fischer-skák og sá sem talinn er vera verðandi heimsmeistari í fyrrnefndu fyrirkomulagi. Allt sé þó hægt.
„Það er svona pínu eins og Valur fengi að taka þátt í átta liða úrslitum meistaradeildarinnar,“ segir Hjörvar.
Hafa leyfi til að leita í eyrum skákmanna
Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands segir gaman hvað það séu margir að koma og horfa á skákmótið. Þetta sé eins og í gamla daga.
Mótið er haldið á Reykjavík Natura hótelinu og er ströng öryggisgæsla á svæðinu. Bannað er að vera með síma, snjallúr eða slíkt inni í skáksalnum.
„Þegar menn yfirgefa skáksalinn þá þurfa menn að vera í svona fimm mínútna sóttkví þar sem menn komast ekki í síma eða neitt,“ segir Gunnar. Heimurinn utan salar sé fimm mínútum eftir á rauntíma keppninnar.

Mikið hefur verið rætt um svindl innan skákheimsins síðustu vikur en skákmaðurinn Magnus Carlsen ýjaði að því að kollegi hans, Hans Niemann hefði svindlað í viðureign þeirra á Sinquefield-skákmótinu. Einnig hefur því verið velt upp að Niemann hafi ef til vill svindlað þegar hann tefldi við Hjörvar á Reykjavíkurmótinu í apríl.
Hjörvar hafi áður sagt taflmennsku Niemann undarlega en þar sem hann sé lögfræðingur vilji hann ekki saka neinn um svindl án sannanna.
Skáksambands Íslands tilkynnti keppendum á heimsmeistaramótinu í Fischer-skák að það áskilji sér rétt til þess að leita í eyrum keppenda fyrirvaralaust. Forseti skáksambandsins segir keppendur hafa skrifað undir það og enginn vandi sé til staðar hvað það varðar.