Erlent

Finnskur fjölda­morðingi á flótta hand­tekinn

Atli Ísleifsson skrifar
Juha Valjakkala gengur nú undir nafninu Nikita Bergenström.
Juha Valjakkala gengur nú undir nafninu Nikita Bergenström. Finnska lögreglan

Lögregla í Finnlandi handtók í gærkvöldi fangann Juha Valjakkala eftir að hann hafði flúið úr opnu fangelsi. Valjakkala var handtekinn eftir að ábendingar bárust frá almenningi.

Valjakkala, sem nú gengur undir nafninu Nikita Bergenström, var á sínum tíma dæmdur fyrir að hafa banað heilli fjölskyldu í kirkjugarði í Svíþjóð árið 1988.

Lögregla í Finnlandi lýsti í gærmorgun eftir manninum eftir að sá hafði flúið úr Kerava-fangelsinu. Ekki er að fullu ljóst hvenær hann hafði flúið úr fangelsinu.

Valjakkala drap móður, föður og fimmtán ára son þeirra í kirkjugarði í sænska bænum Åmsele í norðurhluta Svíþjóðar árið 1988. Hann skaut fyrst föðurinn og soninn með haglabyssu af stuttu færi í kirkjugarðinum, og skar svo móðurina á háls eftir að hún hafði komið í kirkjugarðinn í kjölfar þess að hafa heyrt skothljóðin.

Valjakkala varð fyrst handtekinn ári síðar, árið 1989, og dæmdur í lífstíðarfangelsi vegna morðanna. Honum var sleppt árið 2007 eftir að hafa þá afplánað um tvo áratugi í fangelsi, sem þykir sérstaklega langur afplánunartími í Finnlandi.

Juha Valjakkala drap móður, föður og fimmtán ára son þeirra í kirkjugarði í sænska bænum Åmsele árið 1988.Sænska lögreglan

Honum var sleppt árið 2008 en einungis þremur mánuðum síðar var hann handtekinn á ný eftir þrjátíu kílómetra eftirför lögreglu. Finnskir fjölmiðlar segja að fanganum hafi verið lýst sem árásargjörnum manni sem glími við geðræn veikindi.

Valjakkala hefur ítrekað reynt að flýja úr fangelsi. Árið 1994 tók hann fangavörð í gíslingu og flúði vopnaður úr fangelsi í bíl, en náðist skömmu síðar. Árið 2002 flúði hann úr fangelsinu í Pyhäselkä þegar hann var í dagsleyfi.

Fyrir tveimur árum var hann dæmdur fyrir þjófnaðarbrot, ölvunarakstur, akstur án ökuréttinda, skjalafals og brot gegn valdstjórn. Hann var að afplána dóm vegna þeirra brota þegar hann flúði í þetta skiptið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×