Erlent

Telja sig hafa fundið morðingjann

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lola var aðeins tólf ára gömul.
Lola var aðeins tólf ára gömul.

Lögreglan í París telur sig hafa handtekið konuna sem myrti Lolu, tólf ára stelpu, í borginni á föstudaginn. Konan sást á öryggismyndavélum fjölbýlishússins sem Lola bjó í en talið er að hún sé alvarlega veik á geði.

Lola fannst látin á föstudaginn eftir að faðir hennar hafði tilkynnt lögreglu að hún hafi ekki komið heim úr skólanum þann dag. Fyrst greindu fjölmiðlar frá því að lík hennar hafi fundist í ferðatösku en það rétta er að því hafði verið komið fyrir í stórum glærum plastkassa.

BBC greinir frá því að 24 ára gömul kona hafi verið handtekin vegna málsins en í frönskum fjölmiðlum er hún sögð heita Dahbia B. Öryggismyndavélar fjölbýlishússins sem Lola bjó í náðu því á myndband þegar Dahbia gekk inn með Lolu. Seinna sást til hennar labba ein út með umræddan plastkassa.

Fyrst um sinn var talið að morðið tengdist ólöglegri sölu á líffærum en lögreglan segir þá getgátu ekki vera á rökum reist. Hins vegar sé Dahbia veik á geði og morðið líklegast framið að ástæðulausu.

Krufning á líki Lolu leiddi í ljós að hún lést af völdum köfnunar. Einnig fannst stungusár á hálsi hennar. Búið var að setja tvo Post it-límmiða á fætur hennar. Á einum stóð „0“ og á hinum „1“.

Mikil sorg er í Frakklandi í kjölfar dauða Lolu. Bæði borgarstjóri Parísar og menntamálaráðherra Frakklands hafa heimsótt skóla Lolu og rætt við samnemendur hennar. Brigitte Macron, forsetafrú Frakklands, hefur einnig tjáð sig um málið og sagt það vera „viðurstyggilegan harmleik“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×