Þetta segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við fréttastofu. Hann segir að mælar Veðurstofunnar í ánum bendi ekki til þess að rennsli í Gígjukvísl hafi aukist, en þó eru miklar rigningar á svæðinu sem torveldi mælingarnar.
„Það er í raun ekki mikið að frétta núna, en sigið hefur þó haldið áfram,“ segir Bjarki.
Veðurstofan greindi frá því á mánudaginn að hlaup lítið væri hafið úr Grímsvötnum og að spáð væri að hámarksrennsli í Gígjukvísl yrði í dag, miðvikudag.
Tekið var fram að lág vatnsstaða væri í Grímsvötnum og því væri von á litlu hlaupi, um fimm hundruð rúmmetrar á sekúndu, eða tæplega fimmtungi á við síðasta hlaup í desember á síðasta ári.
Talið sé að ef vötnin tæmist alveg geti íshellan sigið um tíu til fimmtán metra í heildina.