Blaðamaður tók púlsinn á JóaPé og fékk að heyra frá hans listræna ferli og söguna á bak við sýninguna.
Hvaðan sækirðu innblástur fyrir sýningunni og hver er tengingin við ömmu þína?
Fyrir þessa sýningu sótti ég innblástur frá ömmu minni en þessi sýning er tileinkuð henni. Amma mín er stórmerkileg kona sem ég lít upp til. Það hefur alltaf verið sterk tenging á milli okkar og saman höfum við baukað margt. Með henni lærði ég að dunda mér og trúa á sjálfan mig.
Það var sama hvaða hugmynd ég fékk, amma var alltaf móttækileg og til í að hjálpa mér að framkvæma hana. Hún hjálpaði mér að finna mína fjöl og ýta mér í þá átt sem mig langaði að fara.

Hefur sýningin verið lengi í bígerð?
Hugmyndin kom fyrst fyrir tveimur árum en síðan þá hefur hún þróast mikið. Fyrst átti sýningin bara að innihalda málverk en svo breyttist það í prentverk og myndbandsverk.

Hvað finnst þér skemmtilegast við að mála?
Mér finnst skemmtilegast þegar ég kemst í góðan og gír og gleymi mér alveg. Þetta getur verið mjög góð hugleiðsla og ég leita reglulega í hana.
Ég er með mikla sköpunarþörf og þá er gott að geta gripið í pensilinn.
Hvaðan færðu oftast hugmyndirnar?
Ég fæ hugmyndir bara hér og þar en ég sæki mikinn innblástur inn á Pinterest, það er hægt að finna alls konar töff hluti þar.
Svo fæ ég líka bara innblástur frá fólkinu í kringum mig og fyrir þessa sýningu er amma mín aðal innblásturinn.

Hvenær opnar sýningin og hvað stendur hún lengi?
Síðastliðinn þriðjudag var sýningin bara opin fyrir fjölskyldu og vini en næstu helgi verður hún opin öllum frá klukkan 13:00-15:00 á bæði laugardag og sunnudag.