Parker stýrði Bournemouth upp í ensku úrvalsdeildina á fyrsta tímabili sínu hjá liðinu en fékk svo bara fjóra leiki í starfi í úrvalsdeildinni. Liðið vann Aston Villa 2-0 í fyrsta leiknum en tapaði svo 4-0 gegn Manchester City, 3-0 gegn Arsenal og 9-0 gegn Liverpool.
Eigendur Bournemouth tóku lítið tillit til þess hverjir mótherjarnir voru í þessum leikjum, og hlustuðu ekki á gagnrýni Parkers á það hve litlu fé hefði verið varið í leikmannakaup, heldur ráku hann.
„Þetta er ótrúlegt,“ sagði Klopp. „Þegar ég heyrði þetta þá fannst mér þetta sýna hversu mikilvægt það er að vera með rétta eigendur,“ sagði Klopp.
„Það komu þrjú lið upp: Nottingham Forest er að kaupa, Fulham er að kaupa, og ég man ekki eftir því að Bournemouth hafi gert mikið. Það er erfitt ef þú ert í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Klopp.
"That's REALLY harsh."
— Sky Sports News (@SkySportsNews) August 30, 2022
Jurgen Klopp reacts to Bournemouth sacking Scott Parker pic.twitter.com/zLCVY658Ad
„Ég fann til með Scott. Það er ekki það að liðið hans sé ekki nógu gott, alls ekki. Það er bara þannig að ef að þú mætir City, Arsenal og Liverpool í fyrstu fjórum leikjunum þá er það eins og uppskrift að því að náð verði í nýjan stjóra, fyrir stressaða eigendur.
Scott er framúrskarandi stjóri og svo fær hann fjóra svona leiki og eigendurnir segja: „Sjáumst seinna?“ Það er rosalega harkalegt,“ sagði Klopp.