„Grunninn í hryllingsmyndum Inúíta má finna í hefðbundnum uppeldisaðferðum hirðingjasamfélagsins. Mikilvægi þess að vara börn og ungmenni við hættum umhverfisins var uppspretta fjölda sagna um skrímsli sem bjuggu allt um kring,“ segir í tilkynningu frá RIFF.
„Skrímslið í hafinu tekur börn og ber þau niður í djúpin til sín og þaðan á enginn afturkvæmt. Norðurljósin dansa um með höfuð þeirra barna sem nota ekki húfur og sparka á milli sín eins og fótbolta. Með því að koma skilaboðum um hættur umhverfisins til barnanna með sögum er engin þörf á því að skamma börn, garga á þau eða refsa þeim.“
Þau læra að þekkja hætturnar með sögunum sem þau drekka í sig með móðurmjólkinni.
„Nýrri hættir, sem fylgdu nýlendustefnu á landsvæðum Inúíta, drógu úr þeim menningarbundnu áherslum sem fylgdu sagnahefð inúíta og skýrir að mörgu leyti þær vinsældir sem hryllingsmyndagerð nútímans fagnar. Nýlenduvæðingu inúítasamfélaga má auðveldlega skoða sem innrás í samfélagið. Myndlíkingin er því fullkomin hvort heldur sem um er að ræða innrás geimvera eða uppvakninga. En það sem er kannski áhugaverðast er að inúískir sögumenn nútímans eru að lýsa heimsenda með sjónarhorni sigurvegarans, þess sem hefur tekist á við áföllin og lifað af hamfarirnar.“
Og sigurvegarinn sækir í aðferðafræði sagnaarfsins, þá þekkingu sem tryggði inúítum líf við erfið skilyrði öld fram af öld. Í aldanna rás hafa konur notað skrímslin til að varða leiðina og því rökrétt að sagnaarfurinn brjóti sér leið með kvenkyns leikstjórum í kvikmyndagerð nútímans.
Leikstjórarnir Nyla Innuksuk og Kirsten Carthew tilheyra þessum hópi kvikmyndagerðafólks og stuttmyndir í leikstjórn Jennie Williams og Mariu Fredriksson verða einnig sýndar á RIFF 2022. Sérstakar umræður verða um hryllingsmyndir norðurskautsins, stýrt af Cass Gardiner og Nyla Innuksuk mun taka þátt í þeim.
Myndirnar sem sýndar verða í þessum flokki eru Slegið til baka / Slash/Back, Póllinn / Polaris, Nalujuk-kvöldið / Nalujuk Night, Mahaha, Nagdýr grjótsins / Gnawer of Rocks og Lærlingur sjamansins / ANGAKUSAJAUJUQ.