Fótbolti

Braithwaite vill fimm milljónir evra fyrir að yfirgefa Barcelona

Atli Arason skrifar
Martin Braithwaite, leikmaður Barcelona.
Martin Braithwaite, leikmaður Barcelona. Getty/Marc Gonzalez

Danski framherjinn Martin Braithwaite er ekki í áformum Barcelona fyrir yfirstandandi leiktímabil. Barcelona vill segja upp samningi sínum við leikmanninn, sem tekur það ekki í mál nema að félagið borgi upp samninginn.

Braithwaite á tvö ár eftir af samningi sínum við Barcelona. Þau tvö ár færa leikmanninum fimm milljónir evra í launagreiðslur og Daninn vill ekki gefa þær fjárhæðir eftir. Ef Barcelona ætlar að rifta samningnum verður félagið að borga Braithwaite þær samningsbundnu fjárhæðir sem leikmaðurinn á inni. Barcelona hefur boðist til að borga helminginn, um 2,5 milljónir evra, en því tilboði var hafnað

Umboðsmenn Braithwaite hafa hafnað öllum viðræðum við félagið eftir að Barcelona skildi Braithwaite ásamt fjórum öðrum leikmönnum eftir í Barcelona, á meðan restin af liðinu fór til Bandaríkjanna að undirbúa leiktímabilið. Það særði Braithwaite sem var fram að því tilbúinn að ræða við félagið um starfslok.

Annaðhvort verður Barcelona að standast við skuldbindingar sínar og borga upp samninginn eða leikmaðurinn verður áfram hjá félaginu og ætlar þá að berjast fyrir sæti sínu í liðinu.

Lið frá Sádi-Arabíu eru sögð hafa áhuga á danska framherjanum en Barcelona verður að hafa hraðar hendur ef félagið ætlar að ná að semja við eitthvað lið til að borga laun Braithwaite þar sem félagaskiptaglugginn lokar næsta fimmtudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×